Kæri lesandi,

ég montaði mig yfir því í gær að jólaslökunin væri hafin, gátlistinn tæmdur og allar nauðsynjar komnar í hús. Ég reyndist fullfljótur á mér, þurfti þrátt fyrir allt að fara með Gunnu, eldri dóttur minni, eina lokaferð í Smáralind til að græja síðustu gjöfina. Í kjölfarið gerðist ég tvöfalt latur, fyrst þegar ég ákvað að við skyldum fara með seinni bílinn í þvottastöð (eftir að sá fyrri var þrifinn í gær) og svo aftur þegar ég gafst upp á röðinni sem virtist ekkert hreyfast í hálftíma. Þá brast mér þolinmæðin og ég keyrði út úr röðinni og út í umferðina hlæblótandi. Gunna gaf mér augnaráðið sem gefur til kynna að við Gamla Fólkið séum dýrategund sem geti stundum verið krökkunum illskiljanleg.

Annars fór þetta blogg eiginlega í algjört fokk í morgun. Mig dreymdi aftur eitthvað mjög skrýtið og merkilegt í nótt, eftir Boris Johnson-drauminn í gær, og ég man skýrt að þegar ég vaknaði í morgun hugsaði ég að ég yrði að blogga um þetta. En svo beið ég með að punkta drauminn niður og allt í einu, nokkrum tímum eftir að ég vaknaði, gat ég ómögulega munað hvað mig dreymdi sem var svona áhugavert.

Og svo fór ég að ávíta mig fyrir að hafa virkilega ætlað að blogga um draumfarir mínar tvo daga í röð. Er þetta öll sköpunargáfan, öll frumlegheitin, spurði ég sjálfan mig. Grét smá. Skar eldingu niður eftir annarri kinninni og gerði gat á geirvörturnar. Svo fannst mér nóg komið af bloggtengdum refsingum, og ég hélt af stað út í Smáralind með Gunnu.

Í kvöld horfði ég svo á tvö viðtöl við rithöfunda. Fyrst var Dóri DNA hjá Sigmundi Erni á Hringbraut í mjög áhugaverðu viðtali. Mér leist ekkert á Dóra framan af ferli hans en hann vann mig á sitt band og ljóðaprósabækurnar hans voru fínar. En Kokkáll kom mér í opna skjöldu og nú er ég formlega fylgjandi höfundar. Hann er áhugaverður karakter, hefur hressandi sýn á nútímann og karlmennskuna og eigið líf, en hann er skiljanlega spurður út í karlmennskuna og nútímann í hverju viðtali vegna umfjöllunarefnis bókarinnar.

Svo horfði ég á þátt um Steinunni Sigurðardóttur á RÚV, en hún ræddi við Artúr Björgvin Bollason bæði heima í Strasbourg og heima á Íslandi í tilefni af fimmtíu ára skáldafmæli sínu. Steinunn talaði mikið um náttúruna og jöklana í viðtalinu, enda bráðnun jökla og loftslagsbreytingar helsta viðfangsefni nýjustu ljóðabókar hennar. Í viðtalinu ræddu hún og Artúr margt annað, meðal annars tilurð skáldsögunnar Hjartastaður. Og mér varð hugsað til þess að þar færi annað fallegt orð sem mætti halda til haga og nota oftar. Um daginn færði ég orðið svikalogn til bókar. Bæti hér með orðinu hjartastaður við.

Þar til næst.