Kæri lesandi,

Þorláksmessa er afstaðin. Eins og venjulega fór dagurinn í lokaundirbúning, ýmsar nautnir og gæðastundir, Die Hard. Ég fékk mér ekki skötu frekar en venjulega, tek ekki þátt í þeirri meðvirknissturlun Íslendinga að reyna enn að sannfæra sig um að eitthvað sem við neyddumst til að borða á öldum áður sé gæðavalkostur nú, þegar við getum fengið okkur pítsu eða burrito hvenær sem við viljum. Ég fékk mér pítsu. Það er jólahefðin heima hjá foreldrum mínum og bræðrum.

Ég hef síðustu daga svarað spurningum um jólaóskalista. Og eins og venjulega hef ég komist að því að það er erfitt að vera forréttindapési. Ég er karlmaður á fertugsaldri sem getur farið út í búð og keypt sér hvað sem hann þarfnast, þegar hann þarfnast þess. Óskalistinn minn telur frekar þá hluti sem ég hef ekki efni á nema með atrennu, hluti sem kosta kannski hundruðir þúsunda króna. Og mér detta ekki einu sinni neinir slíkir í hug akkúrat núna.

Það er því skiljanlega erfitt að kaupa fyrir mig jólagjafir. „Pabbi er alltaf til í góða bók“ er orðinn vel nýttur frasi á þessu heimili, en mér líður alltaf illa að geta ekki tínt til eitthvað skemmtilegra. Samt tekst stelpunum mínum þremur, þeirri sem ég giftist og dætrum hennar, alltaf að koma mér gleðilega á óvart. Ég fer ekki í jólaköttinn þrátt fyrir að vera forréttindapési sem vantar ekkert.

Þetta er svo sem ekki í anda jólanna. Mér er spurn á hvaða stað við erum sem neyslusamfélag þegar ég og margt annað fólk sem þarf í raun ekkert þarf samt nauðsynlega að fá gjafir svo að jólin séu ekki ónýt. Ég þarf þess í raun ekki, en stelpurnar mínar myndu aldrei jafna sig ef pabbi fengi engan pakka undir tréð. Mér hafa dottið í hug lausnir en ég gleymi alltaf að fylgja þeim eftir fyrr en það er of seint, og svo gleymi ég þeim þar til það er orðið of seint á næsta ári, og svo framvegis. Næst læt ég verða af einhverju, bið fólkið mitt um að styrkja góð málefni í mínu nafni eða gefa mæðrastyrksnefnd matargjafir frekar en að gefa manni sem á of margar bækur aðra bók. (Eða peysurnar, ó, ekki minnast á peysurnar.)

Í anda jólanna ætla ég að vera hugulsamur á morgun. Verkefni númer eitt er að tryggja að dætur mínar eigi frábæran dag, verkefni númer tvö að passa að konunni minni finnist hún vera í jafnvígu teymi á meðan hún eldar jólasteikina. Verkefni númer þrjú er að minnast þeirra sem ég get ekki lengur óskað gleðilegra jóla, verkefni fjögur að hugsa hlýtt til þeirra sem minna mega sín. Verkefni númer fimm er að borða ekki yfir mig þessi jólin. Það verkefni mistekst næstum alltaf.

Þetta hefur verið jólahugleiðing Aukalífs árið 2019. Kæri lesandi, eigðu gleðileg jól. Hittumst hér aftur annað kvöld og gerum upp framvindu mála.

Þar til næst.