Kæri lesandi,

nú er jóladagur. Við sitjum öll á víð og dreif um heimili okkar, pakksödd og afslöppuð, skoðandi jólagjafirnar frá því í gær á milli þess sem við lækum matarmyndir annars fólks. Þetta eru aðferðir til að lifa af.


Mér hefur annars tekist að taka mér fréttapásu að mestu leyti frá því fyrir tveimur vikum, þegar ég flaug heim frá Skotlandi daginn fyrir þingkosningar í Bretlandi. Í gær las ég samt tíst þar sem innflytjendaeftirlit Bandaríkjanna grínaðist með að jólasveinninn hefði fengið tímabundið landvistarleyfi (ha ha, hó hó) og svo annað tíst þar sem einn af jakkalökkunum á þingi Bandaríkja Norður-Ameríku, fáviti með gaddfreðið hjarta, talaði um að á jólunum væri vert að minnast þess að frelsarinn sjálfur, Jesúbarnið litla og umkomulausa, hafi fæðst í fjósi og verið lagt í jötu innan um dýrin þar sem eigendur og lánadrottnar þess heims sem María og Jósef tilheyrðu úthýstu parinu sem skorti annað hvort pening eða réttan stimpil í vegabréf til að njóta virðingar.

Í kjölfarið snöggreiddist ég, kreppti hnefa og beit í neðri vörina til að segja ekki eitthvað ó-jólalegt fyrir framan dætur mínar. Mér tókst að hemja mig, þess í stað lokaði ég augunum og gaf mér nokkrar sekúndur til að óska gjörvöllu mannkyni gleðilegra jóla fyrir utan þessa djöfulsins hringorma sem þykjast vera að heiðra Jesúbarnið með því að rífa börn úr höndum mæðra sinna við landamærin. Tröll hafi þetta skítapakk.

Þannig afgreiðir maður pólitík á aðfangadegi. Maður kreppir hnefa, lokar augum, blótar skíthælum hressilega í hljóði og fer svo og faðmar börnin sín. Þetta eru aðferðir til að lifa af.


Í morgun kláraði ég bókina sem ég var hálfnaður með í gærkvöldi. Þetta er skáldsagan Aðferðir til að lifa af eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur. Við skulum gerast fagmannleg hérna: mikið djöfulli er þetta fokking góð bók. Hún er bara hundrað og sjötíu blaðsíður, í raun mætti hún vera lengri, sem eru viðbrögð sem alla höfunda dreymir um að vekja hjá lesendum sínum. Ég gæti alveg lesið fimm hundruð blaðsíður af þessum texta í viðbót. Engu að síður þá er lengdin alveg passleg, GEM tekst að miðla svo mikilli sögu, svo djúpum raunveruleika, svo þrívíðri mynd af fjórum breiðum persónuleikum, á þessum fáu blaðsíðum að það er með ólíkindum. Ef þú myndir setja þessa bók á vog og tíu kílóa lóð á hina skálina myndi lóðið rísa svo hratt til lofts að það myndi hrökkva upp af. Ótrúlega góð bók.


Nautnin er annars í hámarki núna. Ég borðaði kalkúnaafganga í hádeginu og sit nú með köttinn minn í fanginu að vélrita þessi orð. Á eftir hefjast svo veisluhöldin, við förum á tvo staði og svo á aðra tvo á morgun. Þangað til ætla ég að njóta lífsins aðeins meira. Strjúka læðunni. Það er mín aðferð til að lifa af.

Þar til næst.