Kæri lesandi,

ég bloggaði ekkert í gær. Það var með ráðum gert, ég hafði nefnilega ekkert sérstakt að segja. Ég var líka búinn að skrifa hér inn á hverjum degi í mánuð, vefsíðan var farin að senda mér tölvupósta til að óska mér til hamingju með gengið og hvetja mig til að ‘keep the streak going’. Það finnst mér ekki hollt, ef eitthvað er hefur reynslan kennt mér að þá er ég líklegri en ella til að gefast upp á þessari vefsíðu, ef ég fer að finna fyrir einhverri pressu um að skrifa á hverjum degi alveg sama hvað tautar og raular.

Ekki svo að skilja að ég ráði illa við pressu. Ég hef alltaf unnið undir pressu og staðið mig vel. En með pressu kemur oft aukið fermetrarými viðfangsefnisins í hausnum á mér, og áður en ég veit af er ég farinn að leggja heilu og hálfu dagana undir það eitt að ákveða og skipuleggja hvað ég ætla að skrifa á bloggið mitt. Nei, þá er betra að skrifa bara hérna inn þegar ég hef frá einhverju að segja, jafnvel þótt það þýði að ég missi úr stöku dag. No big deal.


Nú hef ég hins vegar frá einhverju að segja. Formlegri jóladagskrá lauk í gær með tveimur fjölskylduveislum um miðjan dag, og fyrir vikið hverfðist allur dagurinn einhvern veginn í kringum þessar veislur eins og tvö svarthol. Fyrir veislur vann ég smá í gærmorgun og las svo um 150 blaðsíður í spennusögunni The Six eftir Liverpool-höfundinn Luca Veste. Hann hefur skrifað framhaldssögur, lögregludrama, í mörg ár en þessi bók er stök saga og hefur verið beðið með mikilli eftirvæntingu í glæpasagnaheimum. Ég kynntist Luca aðeins á íslensku glæpasagnahátíðinni Iceland Noir í fyrra, hann er skemmtilegur fýr og verandi frá Liverpool er hann náttúrulega einhver sem ég held með og styð.

Þannig að ég forpantaði eintak af bókinni hans á Kindle. Útgáfudagur var í gær, Boxing Day í Bretlandi, og þá datt eintakið inn á spjaldtölvuna mína og ég hóf lestur. Bókin fjallar um sex vini – þrjú pör, eiginlega – sem hafa þekkst í rúm tuttugu ár eða frá unglingsaldri. Þau ákveða að fara saman á tónlistarhátíð í Englandi en sú helgi endar með ósköpum því þau verða manni að bana við undarlegar aðstæður í skóginum við tjaldsvæðið. Þessi atburður splúndrar eðlilega vináttu og samböndum þeirra á milli þar til ákveðin atburðarás fer af stað ári seinna sem sameinar þau á ný og neyðir þau til að gera þessa örlagaríku helgi upp.

Ég er sem sagt að verða hálfnaður með bókina og hún er mjög áhugaverð. Veste skrifar skemmtilegan prósa, þetta er fyrstu persónu frásögn og ég veit ekki alveg hversu mikið ég treysti sögumanni, einum hinna umræddu sex. Sagan er spennandi á köflum en hún er meiri ráðgáta heldur en hasar. Ég mun færa til bókar lokadóm þegar ég hef lokið lestri um helgina, en á þessum tímapunkti eru væntingarnar miklar því hann virðist vera að hlaða í alls konar uppljóstranir og óvæntar vinstribeygjur þegar líður á. Ég hlakka til að klára.


Annars er ég aðallega glaður yfir góðum fréttum. Á morgun er vika síðan vetrarsólstöður áttu sér stað. Dagarnir eru teknir að lengjast, og ég fann bara mjög vel fyrir því þegar ég keyrði inn í myrkrið (Sandgerði) í morgun. Það er strax farið að létta aðeins á svartholinu á morgnana. Bráðum verður maður farinn að spjalla við sólina á leið til vinnu. Mikið hlakka ég til. Það er einhver sól í mér eftir þessi afslöppunarjól; mér finnst ég hafa skýra mynd á allt sem ég þarf að hafa augu á, ég er dauðslakur yfir flestu og ég held að ég sé þegar búinn að stilla janúar upp þannig að hann verði með sem jákvæðasta móti. Til dæmis fæ ég loks að mæta í ræktina og sund í janúar, eftir fótbrotið blessaða, og svo er ég þegar búinn að bóka mig á tvær frábærar kvöldstundir sem ættu að gefa vel af sér í gleðibankann. Janúar er oft ansi langur og þungur eftir hátíðarhöldin en mér sýnist hann innihalda talsvert mikla birtu árið 2020. Það er vel.

Þar til næst.