Kæri lesandi,

nú eru aðeins þrír sólarhringar eftir af 2019. Þá er venjan að gera upp árið sem er að líða og spyrja lykilspurningar; hvernig get ég lifað betra lífi á næsta ári? Við erum sífellt að leitast við að greina tilveru okkar, finna hvað má betrumbæta og hvar má klippa, skera, líma, föndra.

Þegar ég flutti á nýja skrifstofu um síðustu mánaðamót ákvað ég að gera breytingu á vinnu minni. Ég er mjög stafrænn, hef raunar verið frekar ýtinn við samstarfsaðila mína að færa sem mest af bókhaldi, skráningum og almennri vinnu inn í tölvuskjáinn í stað þess að vera með endalaust af möppum og stöflum upp um allt. Við þetta tækifæri ákvað ég hins vegar að gerast áþreifanlegur. Ég keypti eina A4 stílabók (gula gormabók fyrir örvhenta, sjá mynd hér að ofan) og í henni held ég dagbók yfir allt sem ég geri á hverjum vinnudegi. (Hún er skrifuð á eins konar dulmáli sem enginn skilur nema ég og annað skrýtið fólk, stuldur á henni væri því nánast gagnslaus nema til að staðfesta að það er eitthvað mikið að mér.) Þetta hefur reynst frábær ákvörðun og ég ætla að halda þessu áfram. Bæði er gott að geta flett upp hvað ég gerði á tilteknum degi og þá hefur þetta hjálpað mér að skapa rútínu fyrir hvern dag (við breytingar á starfshögum riðlaðist rútínan og ég þurfti að skapa nýja) og, síðast en ekki síst, gaf mér miklu meiri fókus á hvern vinnudag fyrir sig en ég hafði áður haft. Þetta hefur, í stuttu máli, verið frábært.

Þess vegna er ég nú um áramótin að spá í hvort ég geti ekki gert svipaða hluti fyrir sjálfan mig, utan vinnu. Hvort ég geti ekki einfaldað öll mín kerfi, fækkað öllum skráningartækjum, í eins og eina stílabók … og kannski símann líka. Ég ákvað í kvöld að tæma bakpokann sem fer með mér allra minna ferða og þú getur séð, kæri lesandi, hvað kom upp úr pokanum á myndinni hér að ofan. Bleikt Extra-tyggjó og Apple Airpods, nokkrir pennar og undirstrikunarpenni (mig vantar ennþá góða reglustiku, gleymi alltaf að kaupa hana), tvær góðar bækur sem ég er að lesa og/eða las nýlega, geggjað leðurveski frá Bellroy utan um ritföngin, Airpodsana og tyggjóið, iPhone-síminn í rauða hulstrinu sínu … og þrjár stíla- eða glósubækur. Þar að auki er iPad-inn minn með lyklaborði oft þarna ofan í, sem og fartölvan sem ég er að vélrita á núna. Þá er bara eftir pláss fyrir vatnsbrúsa og nesti.

Þetta eru allt eðalvörur. Fyrir 2-3 árum ákvað ég að leggja áherslu á að nota aðeins það besta, eyða frekar alvöru upphæðum í færri hluti en að vera alltaf að burðast með marga ódýra penna, margar ódýrar stílabækur, alls konar tyggjótegundir þegar ég fæ mér alltaf þá sömu, o.sv.frv. Vandinn liggur því ekki í gæðum heldur magni. Að öllu eðlilegu er ég að nota Calendar í iPhone (sem hefur þann kost að ég og Lilja getum syncað saman og séð alla viðburði hjá hvort öðru, sem er nauðsynlegt fyrir rekstur á fjölskyldu og heimili), Outlook Calendar í vinnunni, Reminders og Notes í iPhone/iPad, Word-skjöl í möppum á Dropbox, Google Docs, stílabókina með rauðu teygjunni fyrir skáldskap, litlu stílabókina fyrir styttri glósur þegar ég nenni ekki að hafa bakpokann á mér (t.d. á viðburðum, út að borða, göngutúrar), gulu stílabókina fyrir vinnu (og aðra slíka fyrir lengri skrif þegar andinn kemur yfir mig, sem gerist sjaldan og þess vegna er hún ekki með á myndinni).

Þetta er, sem sagt, út um allt. Og þegar ég er að reyna að breyta venjum, finna fókus og fá skýra sýn á það hvernig dagarnir framundan líta út, hvað ég vill gera og hvað skiptir máli, þá er erfitt að reyna að draga upplýsingar úr ýmsum áttum saman í huganum. Þetta fer því of oft handaskolum.

Ég hef því verið að íhuga lausnir síðustu daga. Stílabókin góða í vinnunni hentar illa í þetta af því að ég þarf meira en bara reglulega uppfærða dagbók (og svo viðburðir í Outlook). Helst dettur mér í hug að prófa BulletJournal dagbók frá og með fyrsta janúar, auk svo Calendar, Reminders og Notes í iPhone/iPad. Henda öllu hinu ofan í skúffu og vera bara með eina stílabók í gangi, nota símann í allt annað eins og minni glósur og hugmyndir. Ég reyndi BulletJournal fyrir 3-4 árum og var mjög hrifinn af því kerfi þá en einhverra hluta vegna gafst ég upp eftir tvo eða þrjá mánuði. Sennilega var það meira mér að kenna en kerfinu. Mig langar að reyna aftur. Ef svo á að verða hef ég þrjá daga til að velta því fyrir mér og taka ákvörðun. Ég þarf í síðasta lagi að sitja við borð á gamlaársdag og stilla upp janúarmánuði í BulletJournal-bók.

Ég þarf að hugsa þetta aðeins betur, en ég hallast að BJ. Það sakar ekki að reyna. Þetta er allavega eitt svið í lífi mínu sem þarfnast einfaldleika og daglegs aðhalds. BulletJournal er bókstaflega hannað til að veita slíkt. (Ef þú, lesandi góður, veist ekki hvað BulletJournal er þarftu bara að skrifa .com eða leita á YouTube. Þetta er frábært kerfi. Ein stílabók fyrir allt árið, heldur utan um allt, einfaldar og hvetur til daglegra afkasta.)

Jæja. Þetta er nóg af svigum í meginmáli í bili. Ég myndi aldrei skrifa svona margar aukasetningar innan sviga ef klukkan væri ekki að nálgast miðnætti á laugardagskvöldi. Maður leyfir sér ýmislegt á laugardagskvöldum. Sumir drekka, aðrir djamma … ég treð öllum aukasetningum í sviga. Villtur.

Þar til næst.