Kæri lesandi,
í dag fór ég á nýjustu Star Wars-myndina, The Rise of Skywalker, eða Episode IX eins og fullt af fólki kallar hana. Hún var … fín. Eiginlega bæði léleg kvikmynd og hörkugóð skemmtun í einu. Ég er náttúrulega alinn upp við Stjörnustríð, þetta voru fyrstu myndirnar sem allir horfðu aftur og aftur á þegar ég var kornungur pjakkur og þetta hefur fylgt síðan. Ég þekki óþægilega marga (karlkyns) jafnaldra mína sem bíða í ofvæni eftir hverri nýrri mynd úr þessum heimi. Sjálfum tókst mér aldrei að grípa þessa veiru. Ég skal horfa, alltaf gaman í bíó, en áskil mér rétt til að ljúga ekki að sjálfum mér um gæði myndanna.
Þessi var svipuð og hinar. Mikið af flottum stórsenum en um leið og maður fer að hugsa um söguna eða gjörðir leikenda meikar ekkert nokkuð sens. Allt fellur um sjálft sig. En á meðan á þessu stóð var sjónarspilið skemmtilegt og spennandi.
Aðallega er ég svolítið til í að fá frí frá þessari kvörn af Stjörnustríði, ofurhetjum og nostalgíumyndum. Þessi var allt of mikið í nostalgíunni, til dæmis, og stjörnustríð, og nú eru jedi- og sith-riddararnir beisiklí orðnar ofurhetjur. Sem sagt, fullt hús af hlutum sem undirritaður er orðinn þreyttur á að sjá í bíó.
Annað við þessar myndir er að það er orðið rifist nær stanslaust um þær á netinu. Mín kenning er sú að Disney átti aldrei séns á að gera Stjörnustríðsþríleik sem gæti þóknast öllum. Ekki almennt, en síst af öllu á tímum vorra daga. Um leið og stiklan birtist fyrir fyrstu myndina, sumarið 2015, var hún tekin og notuð sem barefli fylkinga á milli í The Great Social Justice Wars. Myndirnar hafa allar verið gripnar svipuðu eignarnámi. Fyrir tveimur árum voru íhaldssamir brjálaðir út í The Last Jedi (Episode VIII). Nú var komið að góða fólkinu að brjálast af því að þessi mynd fór víst of langt til baka til hægri … eða eitthvað. Ég skildi ekki allt brjálæðið þá og ég skil það eiginlega ekki heldur núna. Þetta var poppkorn. Hvernig nennið þið að lesa svona mikið í poppkorn?
Ég ætla bara á jarðbundnar, ódýrar myndir í bíó á næstunni. Helst bara kvikmynduð leikrit. Þetta er komið gott í bili.
Þar til næst.