Kæri lesandi,

ég fór í vinnuna í dag, þennan eina dag eftir nýliðna helgi (og þar áður jólafrí), og nú er komið frí aftur. Áramót. Á morgun er gamlárs, svo kemur nýárs. Eigum við ekki aðeins að gera upp 2019 og skilgreina nokkur markmið fyrir 2020? Er það ekki hálfgerð skylda bloggarans um áramót?

2019 var hörmulegt ár. Ég veit ekki hvort það var versta ár ævi minnar, en mér dettur allavega ekkert verra í hug. Á nýliðnu ári klikkaði næstum allt sem gat klikkað. Forlögin afþökkuðu stórundarlegu skáldsöguna mína í janúar, fólk veiktist í kringum mig (nær og fjær), nærveikindin reyndust vera vegna myglu á heimilinu sem kostaði okkur á fjórðu milljón að laga (fokkið ykkur, tryggingafélög) og heimilisleysi í tæpan mánuð. Við fluttum vinnustaðinn minn í minna húsnæði í upphafi árs, svo brann sá vinnustaður í lok júlí, og viku seinna fótbrotnaði ég. Í haust fékk ég að eyða tveimur mánuðum á sófanum í djúpri lægð, ekki viss hvort ég væri á leið í örorku með hálfónýtan fót, ekki viss hvort ég hefði vinnu til að snúa aftur til ef ég kæmist á fætur, ekki viss um margt hreinlega. Ég skrifaði ekkert í átta mánuði eftir synjanir ársbyrjunar, mér leið illa bæði andlega og líkamlega mest allt árið, og svo framvegis. Það virtist bara ekkert lát á slæmum fréttum úr öllum áttum í ár. Þetta var ótrúlegt.

Eitt klikkaði þó ekki og það var stóra Ítalíuferðin í sumar. Foreldrar mínir héldu saman upp á stórafmæli í Umbria-héraði og við synir þeirra, tengdadætur og barnabörn hittumst þar öll og áttum frábærar tvær vikur saman á Ítalíu. Alls var ég í nítján daga á meginlandinu með mína litlu fjölskyldu. Ég gleymi þessari ferð aldrei og er mjög þakklátur fyrir hana.

Annað sem klikkaði aldrei eru auðvitað fjölskyldan og vinirnir. Þið eruð öll æðisleg og ég elska ykkur. Nema þig, vertu úti!

Samt get ég ekkert annað en afskrifað 2019 sem eitt stórt tap á ferilskránni. Þetta endaði skár en stefndi, það er svosum eitthvað. Ég er enn í góðri vinnu, ég á fjölskylduna mína og fóturinn lagaðist fyrir rest, beinið ákvað allt í einu að ná endum saman þegar læknirinn var eiginlega búinn að gefast upp og panta fyrir mig aðgerð. Ég hef margt til að vera þakklátur fyrir í árslok. Þetta var erfitt, en ég lifði það af og er sterkari fyrir vikið.

Maður byrjar árið 2020 eins og flest öll ár, með sömu markmiðin. To-do listinn heima er langur og ég hlakka til að ráðast á hann strax í janúar með málningarrúllu á lofti. Auðvitað ætlar maður beint í ræktina og taka mataræðið í gegn, oft var þörf en nú er nauðsyn þökk sé fótbrotinu (og lægðinni djúpu). Téð lægð verður einnig tækluð, ég hef í raun eytt miklu af desembermánuði í að skipuleggja hvernig ég ætla að breyta venjum og koma mér upp hollari, skipulagðari, jákvæðari hugsunarhætti. Já, ég veit að ég er að ætla mér jákvæðara hugarfar á árinu sem Trump verður endurkjörinn og heimurinn brennur, látið mig vera. Ég má reyna.

Svo eru nokkur aukaatriði sem ég ætla að reyna við. Eins og ég skrifaði um um daginn ætla ég að halda dagbók frá og með nýársdegi. Ég sat við borð í kvöld og fyllti inn í þá dagbók, nú bíður hún mín á nýársdag og ég hlakka til. Annað sem ég ætla að stefna á er að lesa minna og skrifa meira. Ég les allt of mikið og skrifa ekki nóg. Það er kominn tími á að bæta um betur. Eins langar mig að reyna að lesa minna af íslenskum og enskumælandi höfundum. Eins og hjá flestum eru þetta málin tvö sem ég les á og því er tilhneygingin sú að lesa íslenska höfunda á móðurmálinu og svo aðallega enskumælandi höfunda á þeirra eigin móðurmáli. Á næsta ári langar mig að lesa fleiri íslenskar þýðingar á non-enskumælandi höfundum. Sjáum hvernig það tekst til.

Annað markmið sem ég hef sett mér er að neyta minna. Við Lilja höfum svolítið pælt í þessu undanfarið, ekki vegna fjárskorts heldur af ástæðum andlegrar heilsu og umhverfis, bæði nær og fjær. Þannig að ég er í kaupbindindi frá og með áramótum. Sjáum hvað ég held það út lengi. Engar bækur og engar peysur, það verður sennilega það erfiðasta.

Fleiri markmið munu eflaust fæðast þegar líður á árið, en þetta er ágætis byrjun. Það er líka gott að muna að færast ekki of mikið í fang til að byrja með, það er vísasta leiðin til að renna á rassgatið með allt saman. Þannig að ég geri mér að góðu gagngerar breytingar á líkama, sál, svefni, daglegri rútínu, lestrarvenjum, hreyfingu, jákvæðu hugarfari, neysluvenjum … og svo ætla ég að raka skeggið í fyrramálið og vera skegglaus árið 2020. Bara nokkur atriði, svona til að byrja með.

Hvað þessa síðu varðar set ég mér engin markmið. Þetta er færsla númer 60 á 64 dögum síðan ég byrjaði. Í gær sat ég undir stýri og hugsaði með mér að ég gæti eiginlega ekki íhugað að láta gott heita fyrr en ég næði þúsund færslum. Köllum það ágætis byrjun líka, ef ég næ því.

Þar til næst.