Kæri lesandi,

ég stóð við stóru orðin og rakaði allt hár af höfði mínu í sturtu nú í hádeginu. Það er reyndar lygi, ég hlífði augnhárunum. Húðin verður alltaf sérstaklega gróf og skellótt eftir að maður rakar alskegg í burtu, þetta eru átök með hníf á viðkvæmri húð sem er ekki vön áreitinu svo að maður lítur jafnan út eins og ég veit ekki hvað á eftir. Yfirleitt tekur það svona tvo daga og einn rakstur í viðbót áður en ég verð “eðlilegur” í framan. En ég stóðst ekki mátið og tók sjálfu við þetta tækifæri, lýsti hana svo í svarthvítu og með einhverjum filter sem sýnir allar skellurnar vel. Það er eins og ég hafi verið að borða sand. Njóttu, kæri lesandi, þetta er fyrsta sjálfan mín á síðunni og það á síðasta degi ársins.


Vissirðu annars, kæri lesandi, að Ripp, Rapp og Rupp heita Huey, Louie og Dewey á ensku? Það þykir mér fyndið. Svo spurði dóttir mín í gær hvað WC þýddi. Mig minnti að það þýddi ‘Water Closet’ og stutt gúglun sýndi að ég hafði rétt fyrir mér. Framvegis segist ég ætla í vatnsskápinn.

Talandi um, útlendingur sagði mér eitt sinn að eitt það undarlegasta við Íslendinga væri að við tilkynnum alltaf hvort öðru þegar við færum í vatnsskápinn. Það fannst mér spes. En sennilega rétt. Flestir sem ég þekki, ef fólk er innan um ‘sitt fólk’ og ekki ókunnuga, segir hvort öðru að það ætli aðeins afsíðis. Eins og það sé sjálfsögð kurteisi, svo að viðkomandi lendi ekki í að leita að manni á meðan maður er í vatnsskápnum. En þessi sjálfsagða kurteisi er víst ekki við lýði annars staðar.

Svo sá ég svona áramótapælingu á Twitter í morgun. Þau okkar sem eru fædd á níunda áratugnum munu á morgun ganga inn í fjórða áratuginn sem þau lifa, auk þess að hafa lifað tvær aldir og tvö árþúsund. Geri aðrir betur. Og ég sem verð ekki fertugur fyrr en í vor.


Greta Thunberg er víst manneskja ársins samkvæmt TIME Magazine. Hún er vel að því komin. Hún hóf byltingu unga fólksins fyrir loftslagsbreytingum, hún varð andlit þeirrar mjög svo nauðsynlegu byltingar, hún ferðaðist um heiminn og sagði mikilvægum jakkalökkum til syndanna og hún olli Donald Trump svefnleysi.

Samt, við höldum áfram að hlaða Gretu lofi. Hún vill ekki að við hrósum henni. Hún vill að við hlustum á hana. Hún hefur minna en ekkert við okkur að gera ef við hrósum henni og höldum svo áfram að spilla umhverfinu. Kannski ættum við öll að lofa henni betrumbótum á nýju ári.

Talandi um nýársheitin. Ég fór mikinn hér í gær um þau málefni en svo hugsaði ég eftir á að maður getur í raun aldrei sett sér markmið fyrir allt árið sem er framundan. Maður getur bara ákveðið eitthvað fyrir janúar, og séð svo til hvort framhald verði á. Bæði af því að kannski kemst maður fljótt að því að eitthvað markmið er ekki raunhæft og hættir við, eða finnur betri leiðir, og líka af því að maður veit aldrei hvað árið ber í skauti sér. Ég upplifði það í fyrra, öll áramótaheitin fyrir ári fóru til fjandans strax í janúar og febrúar, í mars var ég orðinn heimilislaus og í ágúst fótbrotinn. Þú veist ekkert hverju lífið kastar að þér. Settu þér takmörk fyrir janúar, kæri lesandi, og sjáðu svo til.


Ljúkum bloggárinu með því heimskulegasta sem ég gerði á árinu 2019. Ég var staddur í Castel del Piano, litlum bæ í úthverfi Perugia á Ítalíu, í miðjum júní. Hitabylgjan barði á okkur, einhverjar 35-38 gráður um miðjan dag, þegar mér datt í hug að fara á bílaþvottastöð með rykugan bílinn. Og það sem verra er, ég tók dætur mínar með af því að þeim leiddist eitthvað heima í húsi, og setti þær í sjóðheitt aftursætið. Miðstöðin kældi okkur snjóbirnina fljótt niður svosum, en það var varla út úr bíl stígandi. Engu að síður ákvað ég að finna frostlög að þvotti loknum, enda alveg tómur af slíkum vökva. Ég fór á bensínstöð og leitaði en fann enga brúsa til sölu. Þá keyrðum við að nálægri hverfisverslun en sú seldi ekki heldur frostlög. Úrkumla vonar, og með stelpurnar vælandi undan sólinni í aftursætinu, keyrði ég inn á bifreiðaverkstæði sem virtist opið. Ég hljóp inn með bílinn í gangi (svo að miðstöðin héldi áfram að kæla illa haldnar stelpurnar), reyndi að gera mig skiljanlegan við ítalskan bifvélavirkja sem talaði enga ensku. Loks benti ég honum á að elta mig út, sýndi honum með látbragði hvernig vökvinn frussast upp úr húddinu á gluggann, opnaði svo húddið og benti á trektina fyrir frostlög. Hann skildi loks og fór inn. Svo kom hann út aftur með garðkönnu, lét renna í hana vatn og hellti ofan í trektina. “Prego”, og svo hristi hann hausinn og gekk aftur inn.

Ég hristi hausinn líka, eldrauður í framan af skömm og hita. Auðvitað þekkja menn engan frostlög sunnarlega á Ítalíu. Þú sprautar bara vatni á helvítis rúðuna.

Ég bauð stelpunum upp á ís á leiðinni heim. Þetta var, þrátt fyrir hrakfarirnar, góður dagur. Þannig var 2019 í hnotskurn.

Þar til á næsta ári.