Kæri lesandi,

nýr dagur, nýtt ár, nýr áratugur. Erum við ekki heppin?

Ég naut áramótanna í faðmi fjölskyldu í gær. Stelpurnar hlupu um allt og léku við frændsystkini sín, kveiktu á blysum og hlógu. Lilja var í faðmi systra sinna og fjölskyldu á meðan ég laumaðist til að horfa á hana, á milli þess sem hún sat hjá mér. Sjálfur var ég óvænt frekar daufur í dálkinn yfir þessum áramótum. Ég átti von á meiri fögnuði að skilja við 2019 en þrátt fyrir bestu tilraunir myndi ég helst lýsa tilfinningunni sem leiðum létti. Tíminn bíður samt ekki eftir neinum og nýja árið gekk í garð á hárréttum tíma. Við skriðum heim upp úr eitt og sofnuðum flest öll á milli tvö og þrjú, sváfum líka frameftir í morgun, kisu til mikillar armæðu en hún reyndi nokkrum sinnum að benda okkur Lilju á að það væri orðið bjart úti og ætlum við ekki að drattast á fætur eða hvað?

Þannig hefst nýr áratugur. Í faðmi fjölskyldu, sofandi frameftir, skammaður af kisu. Ef þetta er byrjunin þá er ljóst að framvindan verður glæst.

Skaupið kom og fór. Sumt hitti í mark, annað ekki, eins og venjulega. Fólk hefur alltaf svo miklar skoðanir á Skaupinu. Það er í eðli málsins að geta aldrei gert öllum til geðs. Mér fannst pólitísku atriðin eiginlega síst í ár, burtséð frá eigin skoðunum þá var þetta stundum svolítil prédikun frekar en grín. Atriði eins og maðurinn sem týndi snjallúrinu sínu, eða Joker-konan sem var sagt aðeins of oft að brosa fannst mér sterkari en pólitíkin. Á heildina ánægður. Skaupið í ár var Skaup, nothing more nothing less.

Svo óðum við drulluleðju við Haukahúsið á Ásvöllum til að komast að brennunin sem var kveikt úti í miðju hrauni. Ég veit ekki hverjum datt í hug að hafa brennuna þarna og eyðileggja hundruðir spariskóa í leiðinni en það var afleit hugmynd. Ég, sem FH-ingur, hef ákveðið að kenna Haukum um þetta. Skamm, Haukar!

Sem sagt. Nýtt ár, nýr ég. Er það ekki alltaf viðkvæðið? Ég ætti þá kannski bara að loka þessari færslu núna, drífa mig út að klífa fjöll og semja ljóð og gerast vegan og læra að prjóna og öðlast nirvana.

Djók. Er að sötra Pepsi Max í morgunmat. Framtíðin getur beðið aðeins lengur.

Þar til næst.