Kæri lesandi,

þegar ég kom út í Sandgerði í morgun mætti mér djúpblár himinn. Ég vissi vart hvaðan á mig stóð veðrið en staldraði við þegar ég steig út úr bílnum og gaf þessu gaum. Mér fannst ég hafa keyrt út úr sortanum inn í birtuna, eins og æðri máttarvöld væru að segja mér að þau hefðu ákveðið að ég ætti skilið ljós í líf mitt. Og ég sem er trúlaus. Ég fylgdist aðeins með blámanum, þótt vindurinn léki um berar kinnar mínar, tímdi eiginlega ekki að fara inn í skrifstofurýmið sem er allt of vel upplýst þegar það er myrkur úti. Ljós er ekki það sama og birta.

Þarna var hann, bjartur og blár himininn, bak við óveðursský. Þessi ský náðu á endanum hingað í Sandgerði og það er skemmst frá því að segja að ég gæti ekki staðið við bílinn minn núna og dáðst að bláum himni. Hann er hvergi sjáanlegur í skafrenningnum sem hér ríkir núna.

Á gamlaársdag fór ég síðasta göngutúr ársins í hverfinu mínu og tók nokkrar myndir, þar á meðal þessa hér að ofan. Daginn áður hafði snjóinn rignt niður og þegar þarna var komið sögu lá djúp þoka yfir öllu. Það var engu að síður hlýtt. Í gær, nýársdag, fór ég í annan göngutúr en þá var búið að rigna og snöggfrjósa svo að hálkan gerði mér erfitt fyrir. Ég notaðist við grasbalana frekar en gangstéttarnar til að halda velli.

Í dag fer ekki nokkur maður út í göngutúr, enda ríkir nú þess konar veður hér á suðvesturhorninu að maður neyðist til að bugta sig og beygja fyrir harðstjórn náttúruaflanna.

Samt. Ég fann birtuna í morgun og geymi hana innra með mér í dag. Þetta hefur verið góður dagur og kvöldið stefnir einnig í mikil ágæti. Hún er þrautseig, bláa birtan.

Eða eins og Camus komst að orði;

Þar til næst.