Kæri lesandi,

það snjóaði ansi hressilega í gær, sem telst nú varla til tíðinda snemma í janúar á þessari eyju. Ég íhugaði stuttlega að vorkenna sjálfum mér og grafa mig undir teppi í stað þess að fara út í gærkvöldi eins og ég hafði ráðgert, en svo mundi ég að ég er Íslendingur og við eigum að vera vön þessu. Þannig að ég fór út og skóf af bílnum í þriðja skiptið sama daginn, keyrði fyrst inn í Þingholtin og svo þaðan upp í Egilshöll í Grafarvogi.

Ég og Fiffi fórum sem sagt í Egilshöll að horfa á Liverpool vinna fótboltaleik, nokkuð sem gerist tvisvar í viku þessi misserin, undantekningalítið. Við sátum innan um stóran hóp Liverpool-stuðningsmanna, sem var Fiffa ekki auðvelt verandi Man United-aðdáandi sjálfur, en við horfðum nokkrum sinnum saman á United á síðasta ári en aldrei á Liverpool svo hann skuldaði mér. Og nú, þegar Liverpool eru óstöðvandi og ég gat verið óþolandi góður með mig í tvo tíma, þá innheimti ég skuldina. Þannig rúlla ég bara, yo.

Áhorfendahópurinn var slakur yfir þessu, svona að mestu leyti. Fyrir aftan okkur sátu reyndar 3-4 digrir karlar sem höfðu allt á hornum sér, eins og liðið skuldaði þeim persónulega að vera komið í 5-0 eftir hálftíma í hverjum leik. Ef þú ert Liverpool-aðdáandi og hefur allt á hornum þér yfir leikjum liðsins þessa dagana þarftu alvarlega að endurskoða þín mál. Það er bara þannig, ef menn geta ekki glaðst og slappað af og notið núna þá gera menn það aldrei. Né konur.

Um liðið veit ég varla hvað er hægt að segja sem hefur ekki verið ritað út um allar trissur undanfarið. Ég skrifaði náttúrulega nær daglega um Liverpool á Kop.is í þrettán ár og þurfti að venja mig af því að fjalla um liðið. Það hafðist á endanum, og því finnst mér skrítið að skrifa um liðið í dag. Það er eitthvað vöðvaminni sem kikkar inn þegar ég byrja setningu á „Liverpool“ eða „Klopp“, svo dæmi sé tekið, og fyrr en varir er ég kominn í gamla gírinn.

Þetta lið er sturlað. Ógeðslega gott. Framar öllum vonum og væntingum. Ég er fæddur 1980, man ekki eftir síðasta deildartitli liðsins 1990 en hef horft á nær alla leiki síðustu svona tuttugu árin. 97% þeirra hið minnsta. Og ég hef aldrei séð neitt þessu líkt, og kannski tvö eða þrjú félagslið almennt á þessu tímabili sem geta staðið jafnfætis þessu Liverpool-liði. Síðustu tvö ár, síðan minn maður Van Dijk mætti í vörnina og svo Alisson í markið fyrir aftan hann, sem reyndist eiginlega síðasta púslið í því sem Klopp var að byggja upp, hefur þetta bara verið veisla.

Gefum Hallgrími Helgasyni orðið. Ég hjó eftir þessum status hjá honum í gærkvöldi á Andritinu, og leyfi mér að birta hér skjáskot:

Nákvæmlega. Matti er skáldið, klárlega, en Mané … Mané er rapparinn. Það ræður enginn við hraðann á honum, og djöfull sem hann er snjall.

Þetta er staðan. Liverpool hefur ekki unnið deildina að mér vitandi, eða síðan ég var of ungur til að muna eftir því. Þessari staðreynd hefur nú ekkert lítið verið baunað á okkur stuðningsmennina í gegnum árin. Þannig að ef nú er virkilega komið að því þá er það ansi stórt mál í lífi ansi margra. Það er bara þannig. Ég vona að mínir menn klári þetta loksins í vor, þeir fá sennilega aldrei betra tækifæri til að loka þessu og losna við grýluna af bakinu.

Annars var mér boðið í reglubundið hringborð í útvarpsþætti Fótbolta.net á morgun á X-inu 97.7. Ég er þar á hverjum vetri að spjalla um enska boltann, velja úrvalslið og svona. Þetta eru leifar af því þegar ég var á kafi í skrifum og umfjöllun um enska boltann, en þótt ég hafi dregið mig úr því að nær öllu leyti til að einbeita mér að öðru þá finnst mér enn gaman að vera boðið 1-2 sinnum á vetri í útvarpið til að spjalla.

Ég vona bara að óveðrið sem spáð er á morgun setji ekki strik í reikn- … æ, já, ég er Íslendingur. Ég á að vera vanur þessu. Læt ekkert stoppa mig.

Þar til næst.