Kæri lesandi,
ég vaknaði í morgun við ærið verkefni. Fékk að grafa bílinn minn út úr snjónum í miðri lægð og fara af stað inn í Reykjavík. Það var ekki mikill snjór á götunni, ég komst út úr hverfinu þrátt fyrir að ekki væri búið að skafa, en það var mikill vindur og skafrenningurinn stóð beint inn undir trefilinn, húfuna og hettuna hjá mér. Þegar bíllinn var orðinn auður þurfti ég að stökkva inn og skipta um jakka og peysu, þetta var allt orðið blautt í gegn!
Nema hvað, ég hafði það af. Keyrslan inn í Reykjavík var lítið mál og ég skemmti mér vel hjá Tomma og Elvari á X-inu við hringborðið svokallaða. Við spjölluðum um fótbolta í næstum því einn og hálfan tíma. Þegar ég kom út úr höfuðstöðvum Sýnar hafði veðrið dottið aðeins niður, enn rok en ekki eins mikið og snjórinn hafði vikið fyrir rigningu sem gerði allan akstur auðveldari.
Á leiðinni heim kom ég við í Smáralind og keypti mér nýja Airpods-hnappa í eyrun. Ég keypti þessa undragræju fyrir þremur árum, var á biðlista um leið og hún kom til landsins í janúar 2017 þegar Apple kynnti þessa hnappa fyrst til sögunnar. Ég hef notað þá í fleiri klukkutíma á dag á hverjum einasta degi síðan. Þetta er, í stuttu máli, besta græja sem ég hef átt um ævina. Nú eru auðvitað til fleiri tegundir af svona þráðlausum hnöppum í eyrun en bara Apple Airpods og ég gæti alveg hugsað mér að eiga aðra tegund, en án hnappa almennt gæti ég einfaldlega ekki verið. Þannig að þegar mínir voru farnir að bila og endast í kortér í einu sökum aldurs og ofnotkunar í nóvember/desember var ljóst að ég þyrfti að kaupa nýja.
Þetta fór í eyrun í dag, þriðja útgáfa af þessum undrahnöppum. Ég er ekki frá því að sándið sé talsvert betra, allt annað er svo óbreytt að ég þekki ekki muninn á gömlu og nýju þegar hleðsluboxin eru lokuð (sjá mynd). Enda óþarft að laga eitthvað sem ekki er brotið.
Annars hékk ég heima í allan dag. Kláraði að lesa The Six eftir Luca Veste, sem ég lofaði að klára um síðustu helgi en það dróst eitthvað aðeins. Hún var … vonbrigði, eiginlega. Skringilega sögð, vissulega ráðgáta fram á síðustu metrana en fléttuna skorti einhvern veginn allan hraða og spennu. Ég átti von á meiru.
Næst ætla ég að lesa Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörns. Bók sem sló í gegn fyrir jólin og allir keppast við að ausa lofi.
Núna er ég hins vegar vakandi fram eftir að horfa á Wildcard-helgina í NFL-deildinni vestan hafs. Það besta við janúarmánuð er að þá er veisla um hverja helgi í bandaríska ruðningnum. Ég elska þessa úrslitakeppni og missi ekki úr leik á hverju ári. Frábært líka þegar það geisar veður fyrir utan gluggann hjá manni og varla hundi út sigandi. Go, team!
Þar til næst.