Kæri lesandi,

þessi sunnudagur varð eiginlega að engu. Ég vakti of lengi í nótt (eirðarleysi og íþróttagláp fram á morgun) og svaf því langleiðina til hádegis. Þegar ég vaknaði voru stelpurnar mínar allar uppteknar svo ég stökk á kaffihús og hitti Hauk bróður og litlu fjölskylduna hans. Við spjölluðum aðeins. Svo fór ég heim og lyppaðist hálfpartinn niður, horfði bara smá á sjónvarpsþætti með Gunnu áður en íþróttagláp dagsins hófst. Nú sit ég enn í sófanum og horfi á bandaríska ruðninginn með öðru. Einum hádramatískum leik nýlokið og annar að hefjast.

Á morgun hefst svo fyrsta fulla vinnuvikan í þrjár vikur. Það verður örugglega brekka. Þýðir samt ekkert annað en að mæta því með jákvæðninni. Dagarnir eru að lengjast. Það stendur allt til bóta. Ég hef svo sem slakað mjög vel á um helgina áður en þessi vinnuvika hefst, en samt líður mér eins og ég hafi svikist um báða dagana með því að koma ekki einhverju í verk. Hverju veit ég ekki, en bara einhverju. Ég er að vinna í að hlífa sjálfum mér við svona gagnslausri gagnrýni. Þetta hefur ekkert upp á sig.

Þetta blogg er endasleppt í dag enda hef ég ekkert að segja. Uss, þögn, leikurinn er hafinn á ný!

Þar til næst.