Kæri lesandi,
hér fyrir ofan getur að líta eitt frægasta handrit tuttugustu aldarinnar. Þetta er skrollan sem hefur að geyma handritið að On the road, víðfrægri skáldsögu Jack Kerouac. Sagan er í grófum dráttum þannig að Kerouac fór í bústað með fullt af áfengi (og eitthvað minna af matvörum). Hann setti þessa skrollu í ritvélina sína með það fyrir augum að geta skrifað án þess að þurfa nokkru sinni að stoppa, ekki einu sinni til að skipta um pappírsörk í vélinni. Og svo bara byrjaði hann að vélrita, og afraksturinn var ein af dáðari skáldsögum bandarískra bókmennta.
Ég rifja þetta upp af því að ég er að vinna í fjórtándu endurskrifum á handriti. Fjórtán sinnum á 39 mánuðum eða svo, auk ótalinna yfirlestra og/eða lagfæringa.
Ég veit að hann drakk sig í hel og svo framvegis, en stundum vildi ég óska að ég væri Jack Kerouac. Bara ein tilraun, án atrennu, og voilá! Þess í stað þræla ég við fjórtándu tilraun, af því að fólk bíður eftir mér. Hlutirnir eru að gerast, svo lengi sem ég næ að klára innan sómasamlegs tímaramma. Engin pressa, samt, nema sú sem vér sköpum oss.
Jæja, áfram gakk. Handritið yrði brjálað ef það vissi að ég væri að eyða tímanum með blogginu.
Þar til næst.