Kæri lesandi,

ég gleymdi að skrifa hér inn í gær. Gleymdi því bara. Veðursins vegna fór ég snemma heim úr vinnu, sótti dætur mínar í skólann og svo grófum við litla fjölskyldan okkur bara niður í sófann. Ég og Gunna horfðum á stuttröð á Netflix, þrjá þætti undir nafninu Don’t F*ck with Cats sem er með því skrýtnara sem ég hef séð. Þættirnir fjalla um leit nokkurra netriddara að kattamorðingja, en svo allt í einu snúast þeir um eitthvað allt annað, og svo allt annað, og svo. Segi ekki meir, en sjón er sögu ríkari.

Að því loknu settist ég aðeins niður í myrkrinu og tók upp penna. Þá voru stelpurnar farnar inn að sofa og ég gat leyft þögninni að leika um mig. Ég er að prófa mig áfram með söngtexta fyrir leyniverkefni. Það hef ég aðeins einu sinni gert áður, og þá á ensku fyrir hljómsveit. Nú er ég aðeins að yrkja á íslensku í samstarfi við annan mann. Þetta fór vel af stað í gær og var gaman.

Svo las ég í tveimur bókum fyrir svefninn. Ég er kominn vel á veg í Svínshöfuð eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Ég býst við að klára þá bók á næstu dögum, en hún stefnir í að vera alveg jafn góð og afspurnin hefur gefið til kynna. Þá endurreisti ég litla bókaklúbbinn okkar Hauks bróður og Hrannar konu hans. Við ætlum að lesa Glerkastalann eftir Jeannette Walls, sem er bók endurminninga í anda Menntuð eftir Töru Westover, sem ég er einmitt að hlusta á þessa dagana. Þannig að ég er með nefið ofan í bókum.

Og svo var deginum bara lokið. Veðrið geisaði úti og önnur dóttirin þurfti að fá að sofna uppí vegna ofsans, þannig að ég sofnaði með henni og gleymdi blogginu með öllu. Sorrý.


Annars eru ákveðin vonbrigði að sjá hve auðveldlega ég dett í sama farið. Ég ætlaði mér að lesa minna og markvissara í ár en undanfarin ár. Í dag er áttundi janúar og ég er þegar búinn að lesa tvær bækur og með þrjár aðrar í gangi. Þetta er ekki hægt. Ég verð að hægja á mér. Set punkt aftan við Svínshöfuð þegar henni er lokið og tek ekki upp nýja bók, reyni að halda aftur af mér og gefa bókaklúbbnum og þeim Jeannette og Töru smá rými. Ég les alltaf eins og þetta sé kapphlaup, eins og mér liggi á eða sé að vinna upp forskot mér víðlesnari manneskja. Það er ekki heilbrigð nálgun, þótt vissulega sé gaman og gefandi að lesa.


Í dag geisar lægð tvö af þremur á tveimur sólarhringum, og sú þriðja af fjórum í þessari viku eftir hvellinn um síðustu helgi. Haustið var mjög gott og veturinn fór mildilega af stað, en málið er að það gagnaðist mér ekkert af því að ég var hálf húsbundinn vegna fótbrotsins. Þess vegna er mig farið að lengja svolítið eftir góðri þýðu og kyrrð fyrir utan gluggana mína svo ég komist aftur í góða göngutúra. Eftir tvo daga fæ ég svo vonandi grænt ljós frá lækni á að fara í ræktina. Þá verður sko stuð.

Þar til næst.