Kæri lesandi,

myndin hér að ofan hefur verið útsýnið mitt í þessari viku. Ég er aðeins að fá það í hausinn þessa dagana að vera farinn að vinna í Sandgerði. Keyrslan er ekkert mál svo lengi sem veðrið hagar sér. Og veðrið hefur verið mjög óþekkt síðustu daga. Í morgun keyrði ég til Sandgerðis, götur að mestu auðar en hliðarvindarnir erfiðir og snjófok yfir brautina svo mikið að skyggni var næstum ekkert. Í hádeginu keyrði ég svo í enn minna skyggni niður í Keflavík að erindast, þaðan í Grindavík á fund, sem var eiginlega skársti partur leggsins og svo loks heim í Hafnarfjörðinn síðdegis. Þetta var fínasti rúntur, smá quality time í jeppanum og svona, en þessu lægðafargani má alveg fara að ljúka núna. Og þar með er ég búinn að tuða einu sinni enn yfir veðrinu á þessari síðu. Til hamingju með það, lesandi kær. Við erum í þessu saman.

Í kvöld fór ég svo út að borða og í leikhús. Við Eyvindur fórum á Grillhúsið, sem er bæði alls ekki menningarlegt og temmilega menningarlegt, og ræddum aðallega um rokktónlist af ýmsum toga yfir máltíðinni. Einhverra hluta vegna endaði ég á að útskýra fyrir honum hvers vegna kanadíska rokksveitin Nickelback er svona óvinsæl í netheimum, og á móti sagði hann mér frá óþoli sínu gagnvart Kiss og þá sérstaklega Gene Simmons. En svo ræddum við líka fullt af skemmtilegri rokksveitum. Samtalið toppaði sig svo þegar ég greip til varna fyrir Flórídasveitina Creed sem Eyvindur veittist ómaklega að. Ég hrútskýrði þá vitleysu úr honum, vonandi fyrir fullt og allt. Ég treysti því að hann sitji nú heima hjá sér að spila á sprúðlandi lüftgïtar yfir „Torn“ eða „Pity for a Dime“.

Þjóðleikhúsið í kvöld, fyrir sýningu.

Talandi um menningu, þá fórum við svo í leikhús, á Atómstöðina í Þjóðleikhúsinu. Ég las einmitt bókina um daginn til að hita upp fyrir sýninguna. Það er skemmst frá því að segja að við vorum ekki nógu hrifnir af þessari sýningu. Reyndar eru farnar að renna á mig tvær grímur hvað varðar leikhús. Ég fer nokkrum sinnum á ári og ég lendi oftar í því að drepleiðast en ekki. Sennilega ætti ég að hlusta á skilaboðin frá sjálfum mér: það er kominn tími til að hvíla sig á leikhúsum. Reyna aftur eftir fimm ár eða svo. Prófa uppistand í staðinn, já eða jafnvel fleiri tónleika. Sjáum til, en sýningin var allavega tóm vonbrigði og við nenntum ekki inn aftur eftir hlé.

Þess vegna sit ég nú hér, heima hjá mér við stóra borðið og hamra á lyklaborðið, í stað þess að vera enn að þjást í leikhúsi. Sorrý leikhús, það eru ekki þið, mig grunar að það sé ég. Ég held ég fari bara að lesa fyrir svefninn.

Þar til næst.