Kæri lesandi,
ég hef aldrei bragðað jafn góða máltíð og næsti morgunmatur Raymond K Hessel eftir að Tyler miðaði byssu á hann. Ég hef aldrei verið jafn lifandi og fallegi albínóinn eftir að Tyler eyðilagði hann. Ég hef aldrei viljað skjóta allar pöndur sem neita að ríða til að bjarga tegund sinni frá útrýmingu. Ég hef lesið Fight Club oftar en nokkra aðra bók, en ég hef samt aldrei freistast til að fremja skemmdar- eða hryðjuverk. Og ég hef ekki slegist síðan ég var unglingur.
Einu sinni fór ég í starfsviðtal. Sönn saga. Ég var nýútskrifaður úr H.Í. með B.A. í Comp. Lit. og var góður með mig. Þannig að ég fór í jakkafötin og mætti á skrifstofu einhvers íslensks greiðslukortafyrirtækis. Starfið var verkefnastjórnun fyrir vildarklúbba einhverra gullkúnna eða hvað það var. Ég steig í vænginn, nýgreiddur og brosandi, gaf mín bestu svör og gerði mitt besta til að fullvissa parið hinum megin við borðið um að ég yrði frábær viðbót við teymið þeirra. Ég hafði starfsreynsluna, menntunina og kunnáttuna til að sinna þessu starfi af ábyrgð og festu. Ég var reiðubúinn.
Viðtalið gekk vel. Mjög vel. Sérstaklega virtist maðurinn ánægður með mig, hló að litlu bröndurunum mínum og svona. Konan var aðeins kaldari, sem ég skildi ekki alveg strax af hverju en varð fljótt ljóst. Þegar viðtalinu var að ljúka hallaði hún sér fram á borðið og skoðaði ferilskrána mína. Svo spurði hún mig spurningar.
Hún: „Þú fékkst fyrstu ágætiseinkunn fyrir lokaritgerðina þína, ekki satt?“
Ég: „Jú, svo er víst.“
Hún: „Skipulögð rothögg. Um mínímalisma í Fight Club og bandarískum bókmenntum tuttugustu aldar. Áhugavert umfjöllunarefni.“
Ég: „Já. Ég greindi tilurð og þróun bandarísks mínímalisma í bókmenntum frá tímum Fitzgerald og Hemingway til höfunda eins og Amy Hempel, Denis Johnson og, jú, Chuck Palahniuk sem skrifaði einmitt Fight Club.“
Hún: „Fight Club, já. Ég man eftir þeirri mynd. Frábær mynd. Segðu mér, er það ekki rétt munað hjá mér að í lok þeirrar myndar sprengi aðalhetjurnar allar höfuðstöðvar greiðslukortafyrirtækja í loft upp?“
Ég: „Uuu … jú, það er rétt. Það atriði er reyndar ekki í bókinni, en í myndinni já.“
Hún: * hallar sér aftur * „Einmitt.“
Ég fékk ekki starfið, ekki einu sinni kurteisissímtalið. Ég hef oft hlegið að þessu, að konan í gráu dragtinni hafi haldið að ég væri líklegur til að sprengja vinnustaðinn þeirra í loft upp ef þau hleyptu mér innfyrir dyrnar.
Rúmu ári síðar voru greiðslukortafyrirtækin, og aðrar fjármálastofnanir, lagðar að velli innan frá. Til þess þurfti ekki dýnamít heldur bara gömlu, góðu íslensku meðvirknina og viljann til að klæða sig í jakkafötin, brosa og láta eins og kapítalíska kerfið sé eðlilegt. Ég fór aftur að keyra lyftara, sem reyndist bæði bjargræði og sjálfsskaparvíti og hef síðan fylgt þeirri reglu að klæðast jakkafötum aðeins í jarðarförum, og stundum ekki einu sinni þá.
Fight Club er ekki einu sinni upphefð á glæpum. Hún hefur alltaf verið og heldur áfram að vera gífurlega misskilin saga. Palahniuk skrifaði hana sem tilraun til að afbyggja það sem hann kallaði týnda kynslóð karlmanna, og við höfum í dag gefið heitið eitruð karlmennska. Hann vildi sýna fram á að múgurinn er fær um alls konar illvirki ef hann bara fær réttan leiðtoga til að fylgja fram af klettabrúninni. Tyler Durden er ekki hetjan okkar allra. Tyler Durden er Adolf Hitler. Tyler Durden er Donald Trump. Og svo framvegis. Bókin er frábær (kvikmyndin líka) af því að hún skapaði magnað skrímsli. Karlmenn eru heimskir af því að þeir gerðu skrímslið að hetju, litu upp til ófreskjunnar. Það er ekki Palahniuk að kenna.
Og ég, aumingja ég sem hélt ég væri að stunda fræðimennsku þegar ég greindi frásagnarmáta Palahniuk í sinni fyrstu skáldsögu, setti setningarfræði hans í sögulegt samhengi við The Great Gatsby og The Old Man and The Sea og hryðjuverkaárásirnar 11. september 2001, algjörlega grunlaus um að meint fræðimennska mín myndi kosta mig mögulegt framtíðarstarf hjá rótgrónu stórfyrirtæki.
Lífið er óútreiknanlegt.
Æ, já. Myndin hér að ofan? Ég fór í röntgen í morgun á endurkomudeild Borgarspítalans. Ég er ekki lengur fótbrotinn. Á morgun ætla ég í sund í fyrsta sinn í hálft ár. Sönn saga.
Þar til næst.