Kæri lesandi,
fyrri hluti þessa laugardags var algjörlega dásamlegur. Tveir litlir frændur Lilju gistu hjá okkur í nótt og því vöknuðum við í morgun við barnsraddir í fleirtölu. Kolla var með leikfélagana í heimsókn og þau þrjú fóru mikinn. Lilja fór á fætur með þeim og klukkustund síðar skriðum við Gunna fram úr sitt hvoru svefnherberginu. Við borðuðum morgunmat og ég vaskaði upp eftir að allir höfðu borðað, og svo laumuðumst við Gunna út úr húsi. Hún var búin að panta smá pabbadeit þessa helgina og við höfðum ákveðið, að hennar uppástungu, að fara saman í Nexus í Glæsibæ og finna okkur eitthvað til að lesa saman. Hún er mikill bókabéus eins og karl faðir sinn og er núna á tólfta ári farin að lesa bækur á ensku eins og ekkert sé, þótt ég gæti þess að hún geri íslenskum bókum einnig hátt undir höfði.
Við skoðuðum úrvalið í Nexus og það kom mér skemmtilega á óvart þegar hún fann Earthsea-bækur Ursulu K. Le Guin. Við fundum ódýrar kiljuútgáfur af fyrstu bókinni af sex í þessari seríu, A Wizard of Earthsea, og eftir nánari skoðun var hún æsispennt og við keyptum eintökin. Ætlunin er að lesa bækurnar samtímis og ræða saman á leiðinni að endalokum, og ef okkur líkar vel munum við pottþétt halda áfram með seríuna. Þetta verður mjög exclusive lesklúbbur, jafnvel sá lokaðasti á landinu. Bara snillingar mega vera með, sorrý þið hin. Val Gunnu kom sér vel fyrir mig af því að ég hafði lengi ætlað mér að lesa Earthsea-bækurnar en ekki enn fundið tíma til þess. Nú hef ég hið fullkomna tækifæri.
Svo fórum við á kaffihús og sátum saman og lásum fyrsta kaflann. Þessi bók fer mjög vel af stað, um það vorum við sammála. Þegar heim var svo komið stökk Gunna til og límdi upphafsstafina okkar á bókakápurnar, svo ljóst væri hvort ætti hvaða eintak. Hún hugsar fyrir öllu, ég þarf varla nokkuð að gera í rekstri þessa bókaklúbbs annað en að þakka fyrir mig og lesa. Jú og fjármagna bókakaupin, en það er algjört aukaatriði.
Þessi feðgin munu því dvelja í eyjaklasanum í Jarðarhafi á næstunni. Þetta verður örugglega heilmikið ferðalag.
Ég vona svo bara að seinni hluti laugardagsins verði jafn góður. Nú eru frændurnir farnir til síns heima og Kolla slakar á í iPad, horfir að sjálfsögðu á Frozen haldandi á litlu Funko Pop-Elsunni sem við Gunna keyptum fyrir hana í Nexus, á meðan Lilja fær sér verðskuldaðasta orkublund vikunnar. Ég hef hins vegar skipt um gír frá því fyrr í dag, er í sófanum að hita upp fyrir úrslitakeppnina í bandaríska ruðningnum sem tekur öll völd eftir kvöldmat, en fyrst horfi ég á tvo leiki í enska boltanum. Manchester United eru að vinna nýliða Norwich 4-0 þegar þetta er ritað og að þeim loknum heimsækja mínir menn í Liverpool nýja leikvang Tottenham Hotspur. Það verður hörkuleikur. Svo lauma ég mér út úr húsi eftir kvöldmat, við Eyvindur ætlum að horfa saman á NFL heima hjá honum.
Á morgun ætla ég svo að gera eitthvað uppbyggilegt. Og nei, ég fór ekki í sund í dag eins og ég hafði ráðgert. Bæti pottþétt úr því á morgun, feðginadeitið hafði forgang í dag.
Þar til næst.