Kæri lesandi,

gærkvöldið fór fyrir ofan garð og neðan. Ég settist niður fyrir framan sjónvarpið í gærkvöldi og horfði á úrslitakeppnina í bandaríska ruðningnum, NFL-deildinni. Fyrri leikurinn var æsispennandi þar til í fjórða leikhluta, þegar ljóst var að heimamenn í Kansas myndu hafa betur. Og þá … bara slokknaði á mér. Ég steinsofnaði. Svefnleysi næturinnar áður, er ég vakti yfir sömu úrslitakeppni, náði í skottið á mér og ég skreið á endanum hálfslefandi inn í rúm eftir miðnætti, horfði ekkert á seinni leikinn heldur svaf þess í stað eins og ungabarn í níu tíma samkvæmt snjallúrinu mínu.

Svona er þetta bara stundum. Maður gerir áætlanir, skipuleggur tímann og ætlar sér að gera hluti á sunnudagskvöldi. En svo segir líkaminn bara stopp nú stýrimann og tekur völdin. Kannski er það fyrir bestu. Stundum þarf að bjarga manni frá sér sjálfum, enda fáir jafn vondir við mann og hann sjálfur á stundum.

Ég svaf sem sagt vel. Sofnaði út frá íþróttaleik vestan hafs þar sem kanadíska hljómsveitin Rush var spiluð í hvert sinn sem leikhlé var tekið. Fyrr um daginn hafði ég blastað Rush heima hjá mér og í bílnum með Hauki bróður. Í morgun þegar ég kom til vinnu var kveikt á Rás 2 á skrifstofunni og þar var einnig verið að spila lag með Rush.

Svona hefur helgin gengið, og það skiljanlega. Af því að trommari Rush, Neil Peart, lést úr heilakrabbameini í síðustu viku, aðeins 67 ára gamall. Peart var oft kallaður Prófessorinn og var hluti af þessu þríeyki sem lagði rokkheiminn að fótum sér svo áratugum skipti. Gjörsamlega mögnuð hljómsveit. Ég er sjálfur af þeirri kynslóð að Tool eru minn trúarsöfnuður, frekar en Rush. Ég komst inn í Rush í gegnum Tool, þótt Tool séu yngri hljómsveit og komi seinna til skjalanna, en Rush síaðist á endanum inn líka sem ein af helstu áhrifavöldum Tool, og svo loks sem snillingar á sínum eigin forsendum.

Peart var algjör risi á meðal þeirra þriggja. Þvílíkir hljóðfæraleikarar allir þrír, en það sem Peart gerði á trommusettinu var óheyrt á meðal rokksveita þegar hann tók upp á því að tjá sig svona frjálslega. Hann blandaði einhverjum þéttasta rokkvasa bransans saman við djassað flæði og ótrúlega flottar pælingar. Auk þess var hann eitursnjall textahöfundur og, eins og ég lærði ekki fyrr en nú við dauða hans, ritari endurminninga. Eftir hann liggja held ég þrjár bækur af endurminningum sem ég á alveg örugglega eftir að freistast til að lesa einhvern tímann.

Hans verður samt alltaf minnst fyrir magnaðan trommuleik í nokkra áratugi. Það sést einna best á því hversu margir í rokkinu hafa minnst hans um allan heim síðustu daga. Það er fáheyrt að dauði tónlistarmanns sem ekki var söngvari eða poppstjarna veki slík viðbrögð, en sýnir klárlega hver áhrif hans voru. Ef þú ert trommari í rokkhljómsveit þá ertu undir áhrifum frá Prófessornum, hvort sem þú áttar þig á því eða ekki. Það er bara þannig.

Að mínu leyti má setja þrjá trommara í sérflokk í sögu rokksins: John Bonham, Neil Peart og Danny Carey. DC er auðvitað og verður alltaf minn maður en þú mátt raða þeim í hvaða röð sem er án mótmæla frá mér. Og nú eru tveir af þeim allir, á sama tíma og Carey er enn einu sinni að sjokkera rokkaðdáendur með magnaðri frammistöðu á nýjustu Tool-plötunni. Ég ætla að njóta Carey á meðan hann lifir. Það var sárt að kveðja Peart, ég hugsa þá hugsun ekki til enda hvernig verður að kveðja Carey.

Allavega. Hvíl í friði Prófessor. Og takk fyrir allan hálsríginn í gegnum tíðina. Endum þetta á mögnuðum texta sem Peart samdi við lagið „The Garden“, lokalag síðustu plötu Rush, Clockwork Angels frá 2012:

In this one of many possible worlds, all for the best, or some bizarre test?
It is what it is – and whatever
Time is still the infinite jest
The arrow files when you dream, the hours tick away – the cells tick away
The Watchmaker keeps to his schemes
The hours tick away – they tick away

The measure of a life is a measure of love and respect
So hard to earn, so easily burned
In the fullness of time
A garden to nurture and protect

In the rise and the set of the sun
‘Til the stars go spinning – spinning ’round the night
It is what it is – and forever
Each moment a memory in flight

The arrow flies while you breathe, the hours tick away – the cells tick away
The Watchmaker has time up his sleeve
The hours tick away – they tick away

The treasure of a life is a measure of love and respect
The way you live, the gifts that you give
In the fullness of time
It’s the only return that you expect

The future disappears into memory
With only a moment between
Forever dwells in that moment
Hope is what remains to be seen

Þar til næst.