Kæri lesandi,
fyrsti mánuður ársins er hálfnaður. Hvernig hefur mér svo gengið með öll markmiðin sem ég setti mér um áramót?
Ágætlega. Svosum.
Þetta er brekka, upp í móti, en áfram heldur maður, sveittur og ótrauður. Hraðinn skiptir ekki máli, heldur að halda áfram. Eitt skref í einu. Temja sér nýja siði, venja sig af þeim gömlu. Muna að brosa, líta upp, beinn í baki, snemma að sofa, bursta tennur. Þetta kemur allt saman. Með nógu miklu átaki getur hver sem er orðið fullkominn.
Ég heyrði áhugaverða reglu nýlega hjá þekktum mínímalista. Hann sagðist hafa þá reglu að sleppa aldrei neinu tvo daga í röð. Nennirðu ekki að vinna mikið í dag? Ókei, en þá verðurðu að maxa á morgun. Nennirðu ekki að skrifa í dag? Ókei, en þá vaknar þú snemma í fyrramálið og vélritar. Nennirðu ekki í ræktina? Ókei, en þá verður þú að fara á morgun sama hvað tautar og raular. Langar þig í nammi í dag? Ókei, en þá er það með öllu bannað á morgun.
Þetta er ein leið til að öðlast fullkomnun. Ég sé hana helst eiga við skrifvenjur mínar. Spurning um að taka hana upp. Bannað að skrifa ekki tvo daga í röð. Jájá. Segjum það bara.
Annars líða dagarnir furðu hratt. Þessi lægðadrífa virðist vera afstaðin … í bili. Við erum enn bara í janúar, ég lifi ekki í sjálfsblekkingu hérna. Næsti stormur er á dagskrá á föstudag. Þangað til má aðeins anda og líta út úr húsi. Þetta tekur og gefur á víxl.
Reyndar er líf mitt yfirfullt af drama þessa dagana. Við erum að reyna að venja heimilisköttinn af því að reyna að troða sér á milli koddanna okkar á nóttunni. Þetta gengur vel, við þurfum bara að vera þrjóskari en hún og setja hana jafnharðan á gólfið þegar hún kemur uppí, en á nokkurra daga fresti er eins og hún geri áhlaup og reyni að brjóta okkur niður andlega, hafa betur í störukeppni. Í nótt kom hún svona tíu sinnum uppí, ég vaknaði við malið og/eða hana að sleikja á mér kinnina. Þetta eru ekki kjöraðstæður fyrir góðan nætursvefn, það verður að segjast. Samt, hinn kosturinn er að loka hana inni í þvottahúsi á nóttunni og við erum að reyna að gefa henni frelsið, eins lengi og hún lætur fokking koddana okkar vera á meðan við reynum að sofa.
Hún lærir á endanum, elsku kisan. Við bætum okkur bæði, og verðum á endanum fullkomin.
Þar til næst.