Fyrstu ár ævi minnar var Flateyri eins og draumaland. Ég var ekki á leikskóla, ég var á róló. Frænkur mínar pössuðu mig á róló. Frænkur mínar pössuðu mig eftir róló. Allir skiptust á að passa. Stundum voru krakkarnir heima hjá mér, stundum vorum við annars staðar. Allar dyr voru opnar. Ef mamma og pabbi voru bæði að vinna gat ég valið úr húsum, opnað dyr og fengið mat og hlýtt teppi eða leikfélaga. Ég og vinir mínir, jafnaldrarnir og frændurnir sem voru ári yngri. Krakkarnir á eyrinni. Í litlu sjávarþorpi er engin hverfisskipting, engin stéttarskipting, ekki fyrir krakkana. Flateyri var hverfið. Flateyri var stéttin.

Mamma vann á pósthúsinu, pabbi í frystihúsinu. Hann var landkrabbi, prófaði að fara á sjóinn ungur að árum en það átti ekki við hann. Svo hann beitti á línu, flakaði fisk, keyrði lyftara. Þegar pabbi var í vinnu voru allir pabbarnir í vinnu, því allir pabbarnir unnu við það sama. Þú varst annað hvort sjómaðurinn eða sá sem tók við aflanum þegar hann kom að landi. Þegar mamma var í vinnu var alltaf einhver mamma í vaktafríi eða laus, og sú tók að sér að sjá um hersinguna. Dyrnar stóðu alltaf opnar.

Á sjö árum gisti ég sennilega oftar heima hjá öðru fólki en á næstu þrjátíu og þremur árum til samans. Allir áttu dýnu á gólfið. Allir áttu kókómjólk og kleinur. Amma átti alltaf brauð og djús og ef maður var heppinn hitti maður á afa í hádegishléinu, þar sem hann sat í stólnum sínum og reykti pípuna eða stóð á tröppunum og fylgdist með mannlífinu á eyrinni.

Það var alltaf mannlíf á eyrinni. Við krakkarnir spiluðum fótbolta á túninu, lékum yfir við bátaskúrana, stálum rabarbörum úr gömlum görðum við eldri bárujárnshús eða sníktum fimmtíukall af mömmum og fórum í bakaríið til að kaupa nýbakaða súkkulaðisnúða. Sólin skein, og ef hún skein ekki drógu pabbarnir okkur á snjóþotum. Við lifðum ævintýralífi, kynslóð af krökkum kannski hundrað talsins á reiðhjólum og snjósleðum og takkaskóm innan um fullorðna fólkið, hin fjögur hundruðin sem mynduðu samfélagið. Við fórum upp í Grófina og fylgdumst með gröfunum moka sand á vörubíla, stundum hættum við okkur enn ofar í fjallshlíðina og horfðum niður á þorpið. Þá fannst okkur ótrúlegt hvað fjallshlíðin var brött, fannst eins og ef okkur skreikaði fótur gætum við rúllað á ógnarhraða niður til byggða. Eins og við gætum skollið á veggjum húsanna á tvö hundruð kílómetra hraða.

Við áttum eftir að læra að virða bratta fjallshlíðina. Sú virðing átti eftir að reynast dýrkeypt.

Flateyri var ævintýri líkust. Ég hef aldrei upplifað annað eins frelsi, eins mikil forréttindi og að hafa fengið að vera ungur á slíkum stað. Ég mun aldrei aftur upplifa annað eins.

Við vorum flutt suður þegar snjóflóðin féllu. Á morgun eru 25 ár síðan flóðið í Súðavík féll, í október verða liðin 25 ár síðan Flateyri glataði mannlífum og sakleysi sínu. Litla systir pabba var í bænum ásamt manni sínum. Ég man þegar við heyrðum fréttirnar af flóðinu á Flateyri, man hvar ég sat í hvaða skólastofu í Lækjarskóla í Hafnarfirði. Ég man að ég fór snemma heim, aðeins fimmtán ára gamall, og starði opinmynntur á fréttamyndirnar. Ég man hvað foreldrar mínir og systir pabba voru í miklu sjokki. Þau voru minn mælikvarði á hvað hafði gerst. Ég skildi að ekkert yrði nokkru sinni samt heima á Flateyri.

Sumarið eftir fórum við vestur til að jarða ömmu mína. Bærinn var eins og opið sár, húsgrunnarnir eins og minnisvarðar um lífin sem höfðu glatast. Amma var sett í vígða mold í kirkjugarði án legsteina, en þeir höfðu flestir glatast í flóðinu veturinn áður. Hún var jörðuð í miðju sárinu. Systir hennar grét við komuna vestur, því gleymi ég aldrei. Við kvöddum hana í nóvember síðastliðnum, rúmlega níræða að aldri. Hún fékk árin sem amma fékk ekki, lifði fyrir sig og litlu systur sína. Henni var hlíft við fréttum dagsins í dag, það er kannski einhver miskunn í því.

Árin eftir flóð voru skrýtin og sársaukafull. Við héldum áfram að heimsækja, þau sem eftir bjuggu á Flateyri voru ýmist að skíra eða ferma. Eitt af öðru fluttu þau samt á brott. Afi var jarðsettur við hlið ömmu tólf árum á eftir henni, í kirkjugarði sem hafði verið endurreistur, innan um leiði forfeðra sinna. Hann dó að hausti og við fórum vestur til að jarða hann. Það var í fyrsta skiptið frá flóði sem ég heimsótti Flateyri að vetrarlagi. Við entumst eina nótt í gistihúsinu að Sólbakka, utan snjóflóðavarnanna, þá vorum við látin rýma húsið vegna hættu á flóði. Veðrið barði á okkur svo að maður sá vart út um gluggana allan tímann sem við vorum fyrir vestan, nema rétt á meðan nafni minn var jarðsunginn. Þá skein sólin. Engu að síður var öll helgin óþægileg áminning. Auðvitað var paradís byggð á stað þar sem engum var óhætt að búa.

Í dag fer enginn og situr í fjallshlíðinni. Það er hægt, en þar sem við gátum áður setið og borðað nestið sem amma útbjó fyrir okkur er núna risastórt A sem verndar byggðina. Átti að vernda hana, þar til fyrir tæpum sólarhring síðan að kom í ljós að stórt snjóflóð getur flætt yfir varnirnar og náð í húsin, ógnað íbúum sem töldu sig óhulta í faðmi flóðavarnanna.

Að þessu sinni lést enginn. Fjórtán ára stúlka var hætt komin en henni var bjargað, og við öndum öll léttar. Ég hugsaði oft til hennar í dag. Ég þekki þessa stúlku ekkert, en ég tengi mikið við hana. Flateyri hefur verið hennar æskustöð. Hún var samt óheppin, hún fékk ekki sama óttalausa ævintýralandið og ég. Hún naut ekki sama frelsis. Þegar snjónum kyngdi niður í minni æsku var það tilefni til fagnaðar. Snjóþotur voru dregnar fram, snjóhús grafin. Kertin voru tendruð ef rafmagnið brást, bækur voru lesnar í rökkrinu. Við sváfum flissandi saman í rúmum hvor annarra, strákarnir, með ullarsokka yfir náttbuxurnar til að halda á okkur hita. Við óttuðumst ekkert. Hún hefur örugglega átt margar opnar dyr, eflaust sofið á mörgum dýnum við rúmgafla vinkvenna sinna. En ég er ekki viss um að hún hafi setið óttalaus í fjallshlíðinni. Brattinn þar kæmi henni ekki á óvart.

Ekkert af þessu er sanngjarnt. Þau tuttugu sem létust í flóðinu fyrir tuttugu og fimm árum, auk þeirra fjórtán sem höfðu þegar farið í Súðavík, þau fá aldrei tækifæri til að sakna æsku sinnar eins og ég. Flóðin í gær urðu engum að bana, en mig grunar samt að þetta hafi verið náðarhöggið fyrir Flateyri. Þar sem eitt sinn bjuggu hálft þúsund manna búa nú innan við tvö hundruð. Og mig grunar að þeim fækki enn og aftur eftir þetta, hratt. Atvinna þorpsins beið hamarshögg í gær, og þótt ég efist aldrei um seiglu þeirra sem enn þrauka þarna þá veit ég ekki hvernig nokkur manneskja getur haft það í sér að reyna að byggja upp nýtt líf, ný tækifæri þarna eftir þetta. Ekki eftir að varnirnar vernduðu ekki húsin, ekki eftir að bryggjan reyndist óvarin með öllu.

Þegar ég var ungur ímynduðum við strákarnir okkur stundum að það byggju tröll í fjallinu. Við sveifluðum prikum sem urðu að hárbeittum sverðum og hótuðum tröllunum öllu illu ef þau voguðu sér til byggða. Í nótt ætla ég að loka augunum, leggjast á koddann og ferðast. Ég ætla að verða ungur á ný, hlaupa upp á Goðahólinn og steyta hnefunum að fjallinu. Ég ætla að öskra hástöfum á tröllin, segja þeim hversu ógeðsleg þau eru, skipa þeim að hypja sig á brott. Þau eiga ekkert betra skilið.

Svo ætla ég að rölta niður eyrina og bjóða sjálfum mér í heimsókn einhvers staðar þar sem einn af mörgum hlýjum mömmuföðmum bíða mín. Þiggja kókómjólk og kleinur. Á Flateyri standa dyrnar ávallt opnar.

Þar til næst.