Kæri lesandi,
ég er alltaf að læra meira um sjálfan mig. Ég skrifaði ekkert hér inn í gær af því að ég var upptekinn við að læra eitthvað um sjálfan mig. Fyrir tveimur dögum birti ég hjartnæm, hreinskilin viðbrögð mín við snjóflóðinu á Flateyri. Það var ekki meðvituð ákvörðun að skrifa endurminningar, þangað leitaði hugurinn bara. Maður veit aldrei hvernig maður bregst við einhverju fyrr en á reynir. Ég las fréttirnar af flóðinu og leitaði beint í eigin æsku. Þannig gerðist þetta hjá mér og það skilaði sér í skrifum þess dags.
Skrif eru undarlegt fyrirbæri. Allan tímann sem ég sat við tölvuna á miðvikudagskvöld og hellti úr skálum tilfinninga á lyklaborðið hugsaði ég sterkt með mér, „ekki gera þetta, ekki skrifa þetta, ekki deila þessu, þetta verður bara vesen, fólk gæti lesið þetta, ekki taka sénsinn, ekki ekki ekki“. Svo kláraði ég færsluna og leist vel á hana og þá gerði ég nokkuð sem ég hef ekki gert áður með þessa síðu. Ég deildi færslunni á samfélagsmiðlum. Sem olli því að hundruðir lásu færsluna.
Einu sinni skrifaði ég á margfalt víðlesnari vefsíðu. Þar lásu jafnvel þúsundir færslurnar mínar nokkrum sinnum í viku. Það hægði þó aldrei á mér. Ég skrifaði algjörlega óttalaus á þá síðu, meira en þúsund sinnum á rúmum áratug, og lenti nánast aldrei í vandræðum fyrir skrif mín sem gátu verið alls konar í gæðum og innihaldi. Bara setjast niður, vélrita, lesa snöggt yfir og voilá! Og svo njóta, skella steik á grillið eða hoppa til útlanda. Win-win.
Einhvers staðar á síðustu árum snerist þessi athöfn upp í andstæðu sína. Ég toppaði skrif- og athyglisþörfina sennilega með því að gefa út skáldsögu. Nú er að verða hálfur áratugur síðan. Eftir þá skáldsögu dró ég aðeins í land með opinber skrif, minnkaði aðkomu mína á vefsíðunni fjöllesnu og hætti loks alveg. Ég sagði sjálfum mér, og trúði því, að þetta væri vegna þess að ég vildi setja orkuna í skáldskap, skrif sem ég gat unnið í ró og næði og birt seinna þegar þau væru tilbúin, næstu skáldsögu eða eitthvað annað í þeim dúr, frekar en að vera sífellt að birta skrif á netinu. En svo gerðist eitthvað undarlegt, nokkuð sem ég sá ekki fyrir. Um leið og ég dró saman seglin á netinu og hálfpartinn hvarf af bloggsíðum og samfélagsmiðlum þá snarminnkuðu afköstin ofan í skáldskaparskúffuna góðu. Þessi öfuga, miður góða þróun náði svo hámarki sínu á síðasta ári þegar ég skrifaði ekki staf neins staðar í næstum því níu mánuði.
Þess vegna stofnaði ég Aukalíf. Þess vegna settist ég niður og neyddi sjálfan mig til að skrifa eitthvað, helst daglega, og birta það hér á netinu. Skítt með það hvort fólk les þetta eða ekki, hugsaði ég með mér. Ef allir lesa þetta eða enginn, það má ekki skipta neinu máli. Ég varð að finna aftur þetta frelsi í sjálfum mér að geta setið og vélritað án nokkurs tillits til afleiðinga. Ég varð að sigrast á stjarfanum, hætta að spyrja sjálfan mig, „hvað ef þetta verður ekki fullkomið?“
Ég hugsaði um þetta í allan gærdag. Færslan um Flateyri var fyrsta færslan sem ég deildi einhvers staðar, og fyrir vikið hefur þessi vefsíða fengið fleiri heimsóknir síðustu 40 klukkutímana en hina 90 dagana frá stofnun samanlagt. Ég áttaði mig ekki á því á miðvikudagskvöld, en í gær blasti það við mér. Að skrifa pistil sem var hjartnæmur, sýndi kannski ákveðna viðkvæmni og fór inn á persónulegri málefni en ég er vanur hér, og vera svo það ánægður með hann að ég deildi honum á netinu og gat svo bara farið að sofa, og meira að segja sofið nokkuð vel og lengi án truflana, þetta er skýrasta vísbendingin um að ég er að ná að snúa þessu ferli við. Ég er … á réttri leið. Þessi vefsíða … virkar. Fólk les það sem ég skrifa og ég sef þrátt fyrir þá vitneskju. Þetta þarf ekki að vera fullkomið, og ég er sáttur við það.
Jæja. Þetta er orðið fulldramatískt hjá mér. Best að henda í einn eða tvo brandara á eigin kostnað og loka þessari færslu. Ho ho hum hum. En í alvöru, í gegnum árin áttaði ég mig aldrei á því hvað það var ótrúlegur eiginleiki að geta skrifað eins og vindurinn um allt og ekkert og verið nánast sama hver viðbrögðin við skrifunum yrðu. Og svo áttaði ég mig ekki á því fyrr en of seint að ég hafði glatað þessum eiginleika. Og nú virðist ég ekki hafa áttað mig á því fyrr en það var orðin staðreynd að ég sé mögulega að öðlast þann eiginleika á ný. Þetta hefur verið mér stórmál, og mér er stórlétt.
Á morgun ætla ég að skrifa um hvað sem mér dettur í hug. Kannski verður þú heppinn, lesandi góður, og færð að lesa ljóðræna hugleiðingu um árstíðirnar, skrif sem verða svo djúp og sönn að þú tárast við lesturinn. En kannski skrifa ég bara um vatnsglas.
Þar til næst.