Kæra dagbók,

í gær fór ég á þorrablót og borðaði sviðakjamma í annað skiptið á ævinni. Alveg eins og í fyrsta skiptið, þá lofaði ég sjálfum mér að ég myndi aldrei leggja þetta ógeð mér til munns aftur. Ég hef, augljóslega, þegar brotið það loforð einu sinni. Mun ég brjóta það aftur? Spennandi!

Blótið var annars vel heppnað. Félagsskapurinn var skemmtilegur, við sungum ættjarðarsöngva sem virka á mig eins og hláturjóga. Í hláturjóga byrjar maður á því að hlæja, jafnvel þótt ekkert fyndið sé í gangi, og fyrr en varir er maður farinn að engjast um af hlátri án þess að nokkuð fyndið hafi átt sér stað. Að sama skapi byrjar maður að syngja með fjöldanum fullur aulahrolls en svo kemur einhver vellíðan yfir mann og yfirleitt endar maður lagið með lokuð augun og raddböndin þanin til fulls.

Kannski ætti ég að ganga í kór. Hmmm.


Í dag fór ég loksins í sund í fyrsta skipti eftir að læknirinn gaf mér græna ljósið. Viku á eftir áætlun, ég veit, ég veit. Þetta var samt frábært. Ég hef ekki farið ofan í sundlaug í sjö mánuði. Ég lék við dætur mínar, slakaði á í pottinum með konunni minni, fór tvisvar í gufuna. Það líða ekki sjö mánuðir þangað til næst, svo mikið er víst.

Í kvöld fór ég svo á stórmyndina 1917 í bíó. Það var eiginlega skylda að sjá hana í bíó, fyrst allt bendir til þess að hún muni vinna flest af stóru Óskarsverðlaununum í ár. Ef eitthvað er hafði ég meiri áhyggjur af því að hæpið í kringum myndina væri of mikið, að ég yrði fyrir vonbrigðum ef hún yrði eitthvað minna en stórkostleg.

Hefði ekki þurft að hafa áhyggjur. Fokk.

Sem sagt. Þetta er það sem hefur drifið á daga mína í gær og í dag. Hvorki meira né minna. Ég gæti þurft að loka þessu bloggi ef ég verð svona andlaus á morgun.

Þar til næst.