Kæri lesandi,
söngvakeppnin er farin af stað á ný. Þessi árlega. Ég veit það bara af því að ég kíkti á Facebook og Twitter í hádeginu og annar hver status var eitthvað fólk að lýsa því yfir að hinn og þessi flytjandinn eða lagið eða höfundur væri „þeirra“ í ár. Það heldur áfram að vera með ólíkindum hvað Íslendingar taka þessa keppni alvarlega. Ef þú, lesandi góður, þekkir mig ekki persónulega, þá er hér aðvörun: þetta verður ekki í síðasta skiptið sem ég tuða yfir þessari keppni. Tuðið er mín árlega Júróvisjón-hátíð.
Annars var ég einu sinni sem oftar að pæla í þessu hugtaki, að keppa í listum. Nú styttist til dæmis í að íslensku Bókmenntaverðlaunin verði veitt. Ég hef lesið allar fagurbækurnar sem eru tilnefndar og á erfitt með að velja „sigurvegara“. Eins vorum við Fiffi að ræða möguleika Thomas Newman á að „leggja“ Hildi Guðnadóttur í keppni um Óskarinn, eftir að hafa hlýtt á frábæra hljóðrás hans við myndina 1917. Þetta er vandræðalegt. Af hverju getur maður ekki bara innbyrt list og dæmt hana út frá því hvernig manni hugnast, og/eða hvers konar tilfinningar, upplifanir eða hugsanir téð list vekur með manni? Af hverju þarf alltaf að spyrða listaverkum saman eins og hundum í ati. „Nei, það er ekki nóg að verk þitt sé gott. Þér þurfið að eiga svefnlausan janúar af stressi yfir því hvort það er betra eða verra en hitt góða verkið.“ Af því að við erum stórundarlegt samfélag sem kann engar aðrar leiðir til að meta hluti en að láta þá keppa.
Allavega. Ég ætla að hlusta oft á hljóðrásirnar úr 1917 og Joker næstu daga. Mér er skítsama hvort þeirra vinnur verðlaunin. Bæði góð.
Annars var helgin frábær. Mikið annríki, miklar nautnir, gæðastundir. Og af því að ég er eitthvað skrýtinn veldur sú niðurstaða mér talsverða angist. Ég er enn að glíma við þá visku að til að framleiðni aukist þurfi gæðastundum að fækka, að til að árangur náist verði nautnir að víkja. Ég skrifaði ekki staf um helgina, og kaloríutalningin, maður lifandi. Fátt var eins og ráðgert hafði verið þessa helgina. Það var ótrúlegur lúxus. Ég naut mín í botn, og ég iðrast.
Í kvöld las ég svo áhugaverða ritgerð eftir David Evans, blaðamann. Ritgerðin heitir 33 1/3 og fjallar um tímamótaplötu Manic Street Preachers, The Holy Bible frá 1994. Mjög áhugaverð lesning. Ég hef lengi haft miklar mætur á þessari plötu en aldrei hætt mér í fræðimennsku um hana. Mér skilst að það sé til önnur bók, safn ritgerða um plötuna, og ég les hana eflaust líka á endanum. Það er svo margt merkilegt við The Holy Bible. Hún er í senn reiðiöskur hljómsveitar sem hafði ekki dældað menningu Bretlands eins mikið og þeir vonuðust eftir með fyrstu tveimur plötum sínum og eins konar manifestó textasmiðs sem stimplaði sig út úr samfélagi mannanna stuttu eftir að hún kom út. Richey James Edwards hvarf bara eitt kvöldið fyrir rúmlega kvartöld síðan og hefur aldrei fundist, hvorki lífs né liðinn.
Pottþétt með merkilegri plötum míns æviskeiðs, og eins og þessi rúmlega hundrað blaðsíðna esseyja Evans sannar, listaverk sem er bæði frábært á að hlusta og enn, kvartöld síðar, fær um að vekja fólk til djúprar umhugsunar. Hvaða stytta þarna úti er í boði sem færir listaverki slíkt vægi?
Þar til næst.