Kæri lesandi,

síþreyta, dagur tvö. Ég horfði sennilega á of mikið af íþróttum í sjónvarpinu um helgina (og fór í bíó) því ég hef verið hálf orkulaus í upphafi vikunnar. Þetta er hvimleitt, hefur svo sem ekki haft nein áhrif á útpúttið mitt en innra með mér er hvorki ólgusjór né hressandi brim heldur meira eins og frosið fuglabað í litlu sínu veldi.

Ég geri mitt besta til að hrista þetta af mér með því að fara út og skafa af bílnum. Nokkrum tímum seinna er aftur kominn tími til að skafa af bílnum, og svo aftur og aftur. Good times.

Í morgun sat ég svo á enn einni biðstofunni. Sjá mynd hér að ofan. Ég er að safna biðstofum, hef verið frekar duglegur við að safna þeim síðustu mánuðina. Á fimmtudag bæti ég væntanlega enn einni í safnið. Í þetta sinn var ég hjá sjúkraþjálfara sem ætlar að kenna mér að fara í ræktina án þess að brjóta beinið góða (slæma, svikula) á ný. Ef líf mitt væri kvikmynd þá væri titillinn Beinbrot: A journey to self-discovery. Brotið reyndist opna dyr inn í alls konar tiltekt og betrumbætur í mínu lífi. Það mætti jafnvel segja að ég sé … þakklátur? … fyrir að hafa brotnað? Já? Nei? Ekki? Ég ætla samt að segja það. Að vissu leyti. Með fullt af fyrirvörum. Þakklátur. Jájá. Ég var allavega sofandi og beinbrotið vakti mig með látum. Takk … eh … heimska bein.

Vegna sjúkraþjálfarans og tveggja funda síðar í dag er ég í Hafnarfirði þennan daginn. Sit heima og vinn á meðan sex ára krílið liggur lasið heima og horfir á Garðabrúðuna í tíunda sinn frá því um helgina. Kötturinn situr í gluggakistunni hjá mér og passar garðinn, lætur mig vita ef hún sér fugla eða aðra ketti. Seiðið svarta mallar í íláti við hliðina á tölvunni, síminn hringir af og til en annars bíð ég rólegur eftir að regnvatnið í fuglabaðinu þiðni.

Hugsa ekki um neitt. Áhyggjulaus. Svona dagar eru dýrmætir.

Þar til næst.