Kæri lesandi,

byrjum á startinu. Í gær fór ég til sjúkraþjálfara og svo í ræktina. Ég hafði áhyggjur af því sem maður hefur venjulega áhyggjur af, svo sem þoli og úthaldi þegar hjartað færi loks að vinna fyrir kaupinu sínu eftir of langa pásu. Ég hefði ekki þurft að hafa áhyggjur af því, vissulega var þetta þraut á köflum en ég stóð mig betur þar en ég þorði að vona, þótt ekki segi hjartslátturinn endilega sömu sögu. Þetta var allavega jákvæður tími, ég fór heim stútfullur af endorfíni og hvatningu frá sjúkraþjálfaranum. Næst ætlar hún svo að kenna mér æfingar til að styrkja fótinn í kringum beinið, því þótt það sé ekki vandamál lengur þá var það uppgötvun dagsins að allir vöðvar og liðamót í kringum beinið þurfa aðlögun að auknu álagi eftir kyrrsetuna og sérhlífnina síðustu mánuði. Ég vissi ekki að maður gæti orðið svona fljótt þreyttur í ökklanum, fengið svona hratt krampa í kálfann og orðið svona illt í ilinni. Og það bara á öðrum fæti!

Eitt skref í einu og allt það. Ég er allavega í skýjunum með að löngu ferli sé lokið með því að ég er loks byrjaður að mæta í ræktina. Sjúkraþjálfarinn setti upp tólf vikna plan fyrir mig. Hún vill að ég fari í ræktina 44 sinnum á tólf vikum! Þrisvar í viku í fjórar vikur, og auka það svo upp í fjórum sinnum í viku. Fjörutíu og fjögur skipti fram í miðjan apríl?! Þetta er náttúrulega klikkun. Virðist auðvelt ef maður horfir á þetta á blaði, fara annan hvern dag í vikuna og stöku sinnum hvíla í tvo daga. En á meðan þetta hefur ekki komist í vana er þetta ansi mikið fjall á að líta, og ófrýnilegt yfirferðar. En, eitt skref í einu og allt það.


Í gærkvöldi tók ég svo aðra ákvörðun. Ég er að lesa bók fyrir litla bókaklúbbinn, og aðra með dóttur minni, en þegar þær hafa verið lesnar á næstu dögum mun ég stöðva allan lestur. Stopp fram í lok febrúar hið minnsta. Af hverju gríp ég til svo róttækra aðgerða, spyrðu kannski? Af því að það eru búnar þrjár vikur af janúar og ég er þegar búinn að lesa sjö bækur. Með því áframhaldi mun ég lesa 120 bækur yfir árið, sem er meira en í fyrra! Og ég sem setti mér það áramótaheit að lesa minna, hætta að vera endalaust í kapphlaupi við sjálfan mig, og sérstaklega að hætta að vera með margar bækur í gangi í einu!

Það er nokkuð ljóst að þetta er fyrsta áramótaheitið til að klikka með látum. Ég hef enga stjórn á þessu, ræð ekki við áfergjuna í sjálfum mér. Þannig að nú, þegar bækurnar tvær sem ég má ekki svíkjast um að lesa hafa verið kláraðar, þá stoppa ég. Cold turkey. Bókalaus febrúar, heyrðuð það fyrst hér. Ég ætla ekki að lesa staf sem er ekki skrifaður á einhverri vefsíðu eða í tölvupósti í febrúarmánuði. Og það er hlaupaár, þannig að febrúar verður extra langur í ár!

Svo að febrúarmánuði loknum mun ég mjög gaumgæfilega velja eina bók til að lesa í mars. Heimurinn er fullur af bókum til að lesa en aðeins ein verður fyrir valinu. Þá mun ég lesa kafla á dag fyrir svefninn, annars ekki. Mjaka mér hægt og rólega inn í heilbrigðari lestrarvenjur. Og það án þess að auka t.d. sjónvarpsgláp eða þess háttar. Fylla rýmið sem ég næ að tæma ekki með öðru, heldur sitja bara í því, í tómarúminu, og anda djúpt. Stunda andlegt jóga. Skrifa svo kannski sjálfur, eina blaðsíðu í einu til að fylla upp í þessa tíu andlegu fermetra eða svo .


Að lokum er hér smá naflaskoðun: síðustu 2-3 færslur á þessu bloggi hafa verið svo leiðinlegar og óinspírerandi (það er orð, ég hef ákveðið að þetta sé sletta sem gangi upp) að ég ætla að skrifa einhverja lygasögu hér inn á morgun. Veit ekkert hver sú saga verður, ég ætla bara að setjast niður og byrja að ljúga. Ef sú færsla verður ekki áhugaverðari en síðustu dagar af beinhörðum sannleik hafa verið mun ég bæði loka þessari síðu og setjast í helgan stein sem rithöfundur. Og hana nú!

Þar til næst.