Kæri lesandi,

ég hafði ekki spilað á trompet í nokkur ár. Það kom mér því á óvart þegar ég var á leið til sálfræðings einn morguninn að ég fann fyrir óvæntri þörf fyrir trompetinn minn. Þegar ég var yngri gekk ég um með trompetinn öllum stundum. Ég burðaðist með hann í hljóðfæratöskunni til og frá skóla, allar þessar löngu strætóferðir inn og út úr Hlíðunum, gekk með hann um hverfið og spilaði fyrir krakka sem urðu á vegi mínum. Ég var komin með ansi gott lag á að spila án nótna og fyrirvaralaust. Ég sá trompetinn fyrir mér sem hálfgerða framlengingu á rödd minni, og því í raun eins konar sendiboða sálarinnar. Ekkert hljóðfæri fannst mér bjóða upp á eins mikið frelsi og blásturshljóðfærin. Ég gat gengið um götur og tjáð mig án orða svo að öll nærstödd skildu nákvæmlega hvað ég var að meina.

Svo … svo hætti ég bara að spila. Það er erfitt að útskýra hvers vegna, ég skil það varla sjálf. Ég fullorðnaðist. Önnur atriði tilveru minnar öðluðust meira vægi. Lífið fór úr skorðum. Trompetinn varð oftar eftir heima, og svo alveg. Ég spilaði á hann heima, svo eitt síðdegið þegar ég kom heim úr skólanum var hann ekki lengur í rúminu mínu og ég leitaði ekki að honum. Það var ekki fyrr en mörgum vikum seinna að ég fann hann í vorhreingerningu. Þá lá hann rykfallinn undir rúminu mínu. Ég þurrkaði af honum af natni, losaði vatnið úr pípunum, gekk frá munnstykkinu og lagði hann ofan í hljóðfæratöskuna. Smellti í lás og renndi töskunni svo aftur undir rúm.

Ég blés ekki í trompetinn.

Einn morgun átti ég svo tíma hjá sálfræðingnum. Ég hafði verið reiðubúin að hætta þessum tímum í nokkurn tíma, þeir gengu erfiðlega og skiluðu litlu, mér fannst oft eins og hann væri varla að hlusta á mig og þegar ég hikaði eftir viðbrögðum frá honum fór hann bara að tala um eitthvað allt annað en ég var að tala um. Mamma hélt því samt til streitu að ég færi, hún var hörð á því að ég yrði að tala um það sem gerðist, að ég yrði að opna mig og gefa bataferlinu möguleika. Ég … ég bara gat það ekki. Gat ekki útskýrt hvers vegna ég hætti að hafa trompetinn með mér allra minna ferða, gat ekki sagt ókunnum manni frá. Væri hann svo heppinn að vita ekki hversu djúpt mannskepnan getur sokkið þá langaði mig alls ekki að vera sú sem kæmi honum í skilning um það.

Mamma stóð í dyrunum, löngu komin í yfirhöfn og útiskó og kallaði á eftir mér. Ég íhugaði að læsa mig inni á baði en fattaði svo að það gæti misskilist, að mamma gæti orðið hrædd. Og þá mundi ég eftir honum. Ég féll á hnén, renndi töskunni undan rúminu og smellti henni upp á gátt, og þar var hann, gljáfægður og glansandi.

Ég gat illa ráðið í svipinn á mömmu þegar ég kom tifandi niður stigann í ljósbláa jakkanum mínum og með trompetinn í hendi. Hún opnaði munninn en orðin stóðu á sér, varirnar snertust á ný og hún brosti, og svo hristi hún hausinn. Svo sneri hún sér við og gekk á undan mér út um dyrnar.

Við sátum á allt of lítilli biðstofunni andspænis manni í skítugum gallabuxum og slitnum strigaskóm. Hann var með sítt skegg og úfið hár undir grárri derhúfu og virtist stara skáhallt á símann sinn, eins og hann væri með sjónskekkju en hefði gleymt gleraugunum heima. Í sófanum við hlið hans sat stelpa á svipuðum aldri og ég og starði á okkur mömmu. Biðstofan var frekar þröng, mér fannst við sitja allt of nálægt þeim sem magnaði upp hjá mér kvíðann. Ég trommaði hælunum órólega á gólfdúkinn og reyndi að líta í kringum mig, forðaðist augu mótleikara minna í þessu leikhúsi fáránleikans. Sennilega vildi ekkert af okkur vera þarna. Það langar engan til sálfræðings, hvort sem það gerir fólki á endanum gott eða ekki.

Ég veit ekki af hverju ég gerði það, af hverju ég færði hljóðfærið skyndilega upp að andlitinu, setti stút á varirnar og þrýsti þeim að munnstykkinu, herti kinnarnar svo að loft slyppi ekki út í þær og blés í. Það komst einfaldlega ekkert annað að um leið og hann birtist í dyrunum, sálfræðingurinn, og sagði nafnið mitt, eins slepjulega og hann gat fyrir framan mömmu. Hann ávarpaði mig aldrei með sama tóni fyrir framan aðra eins og þegar við vorum orðin ein. Hann náði varla að klára að segja nafnið mitt áður en ég drekkti honum í frekar fölskum lúðrablæstri. Svo stóð ég upp og hélt á trompetinum inn á skrifstofu til hans, settist niður í sama stól og venjulega og beið eftir að hann lokaði hurðinni.

Hann greip í skrifblokk og penna, páraði eitthvað efst á blaðsíðuna hjá sér og leit svo á mig yfir gleraugun, rýndi í mig eins og hann gerði gjarnan. Svo spurði hann mig sömu spurningar og hann var vanur að spyrja í upphafi tíma. Nákvæmlega sama spurningin, sama orðalagið. Eins og ég færi að segja eitthvað annað í þetta sinn. „Um hvað viltu ræða í dag?“ Beið svo eftir að ég segði „veit það ekki“ eins og venjulega. Eins og við vissum ekki bæði vel að „veit það ekki“ þýddi „ekkert sem er of sársaukafullt, plís“.

Ég svaraði þó ekki eins og ég var vön. Ég var trufluð af bílflautu sem barst inn um opinn gluggann við hlið okkar. Ég leit sem snöggvast út um gluggann og sá bíl sem var næstum því eins á litinn og trompetinn minn. Bíllinn var líka að blása í lúðurinn og skyndilega fannst mér allt að því dónalegt að svara ekki. Þannig að ég bar trompetinn upp að vörunum og blés í. Fyrst einn hreinan tón, eins og ég hefði aldrei hætt að spila, og svo hóf ég að spila stuttan vals eftir minni. Mér fannst ég ekki vera að ákveða neitt í þessu ferli, þessi athöfn var algjörlega úr mínum höndum, hér hafði eitthvað annað tekið yfir, heilagur andi eða barnsleg forvitni, þráin eftir einfaldri, ómengaðri gleði eða bara þörfin fyrir að útrýma þessu steingelda samtali. Ég lokaði augunum um leið og valsinum lauk og hóf samstundis að spila rólegra lag, ballöðu eftir Miles Davis. Angurværir tónarnir fylltu herbergið í kringum okkur eins og reykur þar til ég opnaði augun og sá sálfræðinginn ekki lengur. Hann hafði drukknað í flóði tóna sem gerðu alla liti skærari. Svo opnuðust dyrnar og ég sá hvar mamma stóð brosandi í gættinni. Handan hennar sá ég skeggjaða karlinn og unglingsstúlkuna gægjast inn í rýmið.

Ég hélt áfram að spila. Tónarnir virtust taka á sig skýrari mynd, fastara form eftir því sem spilamennska mín varð öruggari, sem hvatti mig til að gefa mig alla í tónverkið. Ég stóð á fætur og bærðist fram og aftur með melódíunni eins og sólblóm í sumargolu. Tónarnir röðuðu sér upp, nú runnu þeir út úr lúðrinum eins og færiband, þeir þrýstu á gluggahlerann þar til stormjárnið lét undan og hann opnaðist upp á gátt. Tónarnir runnu jafnt og þétt út um gluggann og til himins, þar sem þeir tvístruðust loks í allar áttir og svifu á milli trjánna og yfir götuna eins og fuglager.

Þegar laginu lauk langaði mig ekki til að hætta að spila, en ég var orðin tóm og ég fann enga ástæðu til að spila áfram. Þannig að ég sleit varirnar hægt og rólega af trompetinum og lét hann síga niður fyrir framan mig. Það var eins og ég sæi rýmið aftur fyrir nótunum, fyrst smám saman og svo allt í einu. Sálfræðingurinn sat enn í stólnum sínum, steinrunninn og opinmynntur. Skrifblokkin hafði runnið úr greipum hans og lent öfug á gólfinu við fætur hans.

Við gluggann stóðu skeggjaði karlinn og unglingsstúlkan og horfðu á eftir nótunum sem svifu hærra, hærra þar til þær voru ekki lengur greinanlegar. „Vá“ sögðu þau og virtu fyrir sér útsýnið, trén handan götunnar og bílastæðið beint fyrir neðan. Ég vonaði að áhyggjur þeirra hefðu flogið á brott í tónaflóðinu, eins og mínar.

Ég heyrði mömmu sjúga upp í nefið áður en ég leit á hana. Hún stóð enn í dyrunum og þerraði tárin í ermina sína. Ég gekk til hennar og við féllumst í faðma. Svo sneri hún sér út á ganginn og við gengum saman með hendur utan um hvor aðra, ég tóm og hún titrandi, alla leið út úr húsinu. Við fórum heim og hún minntist aldrei framar á sálfræðinginn. Og alltaf þegar mér leið illa, eða fannst ekki á mig hlustað, eða þurfti bara að heyra í sjálfri mér, þá sótti ég trompetinn og blés í hann svo hátt að allir heyrðu.

Þar til næst.