Kæri lesandi,

dagurinn í dag varð dramatískari en ég hafði ráðgert. Ég ætla ekki að fara út í smáatriðin hér, svo sem, en segjum bara að í hádeginu gerði ég nokkuð sem ég hefði ekki átt að gera, og í kjölfarið gerði ég annað sem ég hefði átt að gera fyrir löngu. Það er ágætis regla í lífinu að trúa fólki þegar það sýnir þér hvaða mann það hefur að geyma. Ég sá það í dag, trúði því og brást við samkvæmt því. Farið hefur fé betra.

Á leiðinni heim kom ég svo við á Fitjum í Reykjanesbæ þar sem mínir menn í Nýsprautun settu nýja peru í annað framljósið á silfurkúlunni. Hún var orðin eineygð. Ég segi mínir menn af því að þetta gerist að minnsta kosti mánaðarlega með þessi blessuðu framljós. Þeir eru orðnir vanir mér og brosa breitt þegar ég kem enn og aftur, spyrja hvorum megin það er í þetta skiptið. Þessi bíll er frábær og kemur mér hratt og örugglega enda á milli, hefur í raun aldrei klikkað í fjögur ár fyrir utan þessi helvítis framljós sem geta ekki haldist í lagi. Ég hef aldrei lent í öðru eins með bifreið.

Í kvöld lét ég svo enn og aftur plata mig út í foreldragæsluna. Við röltum þrír pabbar sjöttubekkinga upp og niður hverfið okkar hér í fjallinu, og það í roki og snjókomu. Þvílíkur bóndadagur, segi ég nú bara. Reyndar gerði þetta skrefafjöldanum mjög gott, úrið var ánægt með mig, og ég gat klæðst einni af mínum mýmörgu peysum. Skrefafjöldi og peysur eru mér afar hugleikin atriði, eins og þú veist vel kæri lesandi.

Fleira er það ekki í dag. Þessi færsla er tíðindalítil, en það er viljandi gert. Fyrsta efnisgreinin var mér meiri léttir en orðafjöldinn gefur til kynna. Ég mun sofa eins og ungabarn í nótt.

Þar til næst.

E.s.
Úps! Ég gleymdi þessu næstum því, en ég vildi halda til haga að þetta er frábær pistill um ritlist hjá Drew Magary. Ég las þennan pistil strax eftir allt dramað í hádeginu í dag og hann var mjög tímanleg áminning um að skrifin eru ekki eitthvað til að óttast heldur eitthvað til að njóta. Ég er algjörlega á þeim nótum og ef mér tekst ekki að njóta þess að skrifa í ár ætla ég einfaldlega að sleppa því. Bros á vör, áfram gakk!