Kæri lesandi,

þá er ég búinn með einu bókina sem ég átti eftir að klára áður en sjálfskipað lestrarhlé hæfist. Bókin heitir The Glass Castle og er eftir Jeannette Walls. Hún rekur hér uppvaxtarsögu sína og sinnar ansi skrautlegu fjölskyldu. Faðir hennar var drykkjusjúklingur og fjárhættuspilari sem hélst hvergi á vinnu á meðan móðir hennar var einhver mesti sveimhugi og heimsmeistari í meðvirkni sem ég hef lesið um í bók. Saman áttu þau fjögur börn, Jeannette næstelst þeirra, en þau stunduðu það reglulega fyrstu ár barnanna að rífa þau upp fyrirvaralaust, oft um miðjar nætur, til að hlaupa út í bíl með aðeins það nauðsynlegasta í farteskinu og flýja lánadrottna og/eða yfirvöld yfir í annað fylki Bandaríkjanna, þar sem þau enduðu jafnan á að taka sér búfestu í sumum af verstu húsum mannkynssögunnar.

Þetta var í senn mikið ævintýri og mikil þolraun fyrir börnin, eins og Jeannette gerir góð skil í bókinni. Fyrstu árin sjá þau foreldra sína í algjörum ljóma, enda eru þau bæði mikið ævintýrafólk með háleitar hugmyndir eins og téðan glerkastala sem pabbinn er alltaf að vinna í teikningum fyrir og segist ætla að smíða fyrir fjölskylduna þegar aðstæður eru réttar. Eins og þú getur eflaust giskað á, kæri lesandi, eru aðstæður aldrei réttar, og þegar börnin eldast fara þau að sjá meira og meira í gegnum foreldra sína þar til örvæntingin er orðin svo mikil á unglingsárum að þau eru farin að vinna aukastörf með skóla og fela launin frá foreldrum sínum til að eiga pening til að flýja um leið og grunnskólavist lýkur.

Þetta er ansi mögnuð saga, vissulega ótrúleg á köflum og ég set fyrirvara við að Jeannette litla virðist vera algjör hetja í sögunni, sú eina sem getur staðið uppi í hárinu á pabba sínum og bregst alltaf rétt við jafnvel erfiðustu málum. Þessi saga er klárlega skrifuð með augum söguhetjunnar. En það breytir því ekki að hún er vel skrifuð og skemmtileg aflestrar. Við í litla bókaklúbbnum munum gera hana upp um leið og skussinn í hópnum er búinn að lesa. (Ég skrifa þessa setningu ef hann skyldi rekast á þetta. Drífðu þig að klára!)

Nú hefst sem sagt sjálfskipað lestrarhlé hjá mér. Ég sé að nýjasta bókin í einni af mínum uppáhalds spennuflokkum, Gibson Vaughn-bækurnar eftir Matthew FitzSimmons, kemur út 18. febrúar og ég á forpantað Kindle-eintak. Þannig að ég les ekkert þangað til, og mun því njóta þess að geta drukkið The Origami Man, fimmtu bókinni í seríunni um hinn snjalla Gibson, í mig þegar hún kemur. Þangað til mun ég standa við það að lesa ekki staf utan vefsíðna og tölvupósts. En ég ætla líka að passa að gefa bókum sem eru sagðar frá sjónarhorni barns frí þegar ég sný aftur úr fríi. Fyrir utan bók Walls hlustaði ég nýlega á bæði Menntuð eftir Töru Westover, sem er svipuð bók endurminninga á hrikalegu uppeldi stúlku í Bandaríkjunum, og Unspeakable Things eftir Jess Lourey, frásögn byggða á sannsögulegum atburðum um raðnauðgara sem herjaði á unglinga í smábæ í Minnesota á níunda áratugnum. Svo hef ég verið að rifja upp Born a Crime eftir Trevor Noah, aðra endurminningabók sem ég las fyrir tveimur árum og kallast mikið á við bækur Walls og Westover.

Allar þessar sögur eru sagðar frá sjónarhorni unga fólksins. Ég hef sem sagt verið með sjónarhorn barna í meira og minna allan janúar. Ég ætla því að passa mig að gefa slíkum bókum lengri pásu þegar ég sný aftur úr lestrarfríi, enda aldrei gott að gera of mikið af því góða.

Þar með er lestrarpokinn tæmdur í bili, of hefst nú lestrarfrí. Hvað er í sjónvarpinu?

Þar til næst.