Kæri lesandi,
ég var heima hjá vini í gærkvöldi þar sem við hlógum dátt og skemmtum okkur. Gleðin rann þó hratt af okkur þegar við sáum fréttirnar af skelfilegu þyrluslysi í hæðum Calabasas í Los Angeles, þar sem flugmaður og níu farþegar létu lífið. Þeirra á meðal voru Kobe Bean Bryant, einn frægasti íþróttamaður í sögu bandarískra íþrótta, og þrettán ára dóttir hans sem var upprennandi stjarna í sömu íþrótt og faðir sinn, körfubolta.
Þessi janúarmánuður virðist ætla að verða ansi blóðugur, almennt. Vinur minn benti mér á að kannski yrði þetta ár eins og 2016, ár þar sem hver stórstjarnan á fætur annarrar kvaddi þennan heim og svo var Beelzebub sjálfur kjörinn leiðtogi hins frjálsa heims við lok árs. Vinur minn benti mér á að það ár hafi verið hlaupaár rétt eins og þetta, þannig að kannski ætti fræga fólkið að óttast hlaupaárin? Það hafa allavega mýmargir frægir yfirgefið okkur nú í janúar, fólk eins og Terry Jones og Neil Peart sem ég hef þegar minnst á þessari síðu. Og Geiri Sæm hér heima. Og nú er Kobe Bryant allur.
Það er alltaf áhugavert að fylgjast með umræðunni og viðbrögðum fólks þegar heimsfrægt fólk deyr, sérstaklega umdeilt fólk. Kobe hét fullu nafni Kobe Bean Bryant en var sem körfuboltamaður oft kallaður Svarta Mamban, af því að hann var banvænn á velli, þú skilur. Hann varð heimsfrægur sautján ára þegar hann fór beint í NBA deildina í körfubolta, í stað þess að halda áfram í námi eftir gaggó. Hann hefur verið í sviðsljósinu í 25 ár en var engu að síður aðeins 41 árs gamall þegar hann lést í gær. Þetta er hrikalega sorglegt allt saman, hann og dóttir hans.
Nema hvað, Bryant var umdeildur karakter. Hann var samkvæmt öllum sögnum mikill öðlingur utan vallar, þar virtist Baunin skína í gegn og hann var mannavinur hinn mesti og mikill fjölskyldumaður. Innan vallar var Mamban hins vegar frekar dirtý karakter, reif kjaft og einokaði boltann og gerði hvað sem er til að vinna. Slíkt má virða en fólk virðist skiptast í tvær fylkingar hvort það megi dást að slíku keppnisskapi eða ekki. Það sem flækir hans sögu svo enn frekar er að hann var sakaður um nauðgun árið 2003, málið fór fyrir rétt en svo var samið í málinu, Bryant samþykkti að biðjast afsökunar án þess að játa sök. Þannig að málinu lauk án skýrrar niðurstöðu, og eins og alltaf þýðir það að sumt fólk vill meina að það hafi átt að koma fram við Bryant eins og nauðgara og útskúfa hann úr samfélagi mannanna á meðan aðrir líta á slík málalok sem sýknun saka.
Hvað sem gerðist þar, og við vitum auðvitað ekkert fyrir vísu, þá er ljóst að maðurinn var mikil hetja og sigurvegari á íþróttaferli sínum. Hjónaband hans þraukaði í gegnum árið 2003 og blómstraði á eftir og hann átti fjórar dætur, þá yngstu sjö mánaða, þegar slysið hræðilega bar að garði.
Ég sá ágætis hugleiðingu um þetta á Twitter í gær, á læstum reikningi svo ég get ekki vísað á hana, en hún var nokkurn veginn svona: viðbrögð okkar við umdeildu fólki segir oft á köflum meira um okkur sjálf. Ef þú brást við hryllilegum dauða Bryant-feðginanna með því að rifja upp nauðgunarmálið og reyna að stýra umræðunni í þá átt að hér hafi nauðgari dáið og farið hafi fé betra, þá segir það vissa hluti um þig. Ef þú brást við með því að hylla íþróttamanninn eða syrgja þá persónu sem Bryant virtist vera á góðri leið með að verða eftir að íþróttaferlinum lauk, þá segir það aðra hluti um þig.
Þín er völin, lesandi góður. Sjálfur kýs ég að leyfa hinum látnu að hvíla í friði, frekar en að rífast um persónu þeirra í eftirmála harmleiks. Leyfið þeim sem syrgja hann að gera það í friði, og hafið í huga að þið eruð ekki skyldug til að þykjast syrgja ef þið höfðuð sjálf lítið álit á manninum. Það má líka.
Annars finnst mér dauðinn vera óþægilega nálægur þessa dagana. Ekki bara dauði fræga fólksins, ég þekki sjálfur fólk sem hefur misst nána ástvini á síðustu dögum. Nýjustu váfréttirnar bárust í morgun og í dag hugsa ég hlýtt til vina minna sem þurfa á næstu dögum að fylgja ástvinum til hinstu hvílu. Þetta er alltaf erfitt, þetta er alltaf ömurlegt.
Vonum að þetta sé bara þessi endalausi janúarmánuður, að dauðinn víki fyrir sólinni og vorinu í febrúar. Það má alltaf vona.
Þar til næst.