Kæri lesandi,

ég er með böggum hildar. Ég fór til sjúkraþjálfara í dag. Hún sagði við mig, sjáum hvað kálfarnir á þér geta, og hún meinti það. Og nú hef ég áhyggjur af því að leggirnir á mér muni aldrei virka eins að nýju. Þvílíkt ástand.

Þetta var sem sagt tími fjögur á degi átta. Verkefnið 44 sinnum í ræktina á tólf vikum fer vel af stað. Í dag kenndi hún mér ýmsar styrktaræfingar fyrir fótinn, og fæturna báða reyndar. Mikið af því sem hún kallar styrktaræfingar hélt ég að væru jafnvægisæfingar, en mér er sagt að þetta tvennt haldist oft í hendur. Ókei. Þá skulum við halda jafnvægi næstu vikurnar.

Að því frátöldu var dagurinn nokkuð góður. Þetta var auðvitað einn af plúsum dagsins, að huga að heilsunni og rækta sjálfan mig, jájá, mér finnst samt gaman að tuða aðeins. Í vinnunni fékk ég að hlaupa á milli hæða og laga IP-stillingar í einhverjum ellefu tölvum hjá þremur fyrirtækjum, með tæknimann frá Símanum í eyrunum til að leiðbeina mér. Það var gaman, starfsmaður mánaðarins, hvunndagshetjan og allt það. Í kvöld fór ég svo og borðaði á Pure Deli í Urðarhvarfi í Kópavogi með Jóhanni vini mínum. Við spjölluðum um allt og ekkert, aðallega bækur og skrif samt. Það er of langt síðan við hittumst síðast, en er það ekki alltaf raunin með vini þegar báðir eiga fjölskyldur o.sv.frv.?

Svo kom ég heim og sá að íslensku bókmenntaverðlaunin voru veitt í kvöld. Ég verð að segja að mér finnst sigurbókin í flokki fagurbókmennta ekkert sérstaklega spennandi þetta árið. Átti eiginlega von á að Guðrún Eva eða Bergþóra myndu vinna í ár, enda bækur þeirra beggja alveg frábærar. En svo mundi ég að auðvitað er bilun að keppa í listum, og að þessi verðlaun hafa enga merkingu. Og svo mundi ég að ég er í dómnefnd annarra íslenskra bókmenntaverðlauna, og skammaði sjálfan mig fyrir hræsnina. Óska verðlaunahöfundinum til hamingju (skrifa nafn hans ekki hér svo að ég lendi ekki í að hann gúggli sig og finni neikvæðnina í mér).

Eitt enn, smá moli í lokin: nýja lagið með Pearl Jam, “Dance of the Clairvoyants” er geðveikt gott. Ég hef haft það á heilanum í heila viku núna. Ógeðslega fín stefnubreyting hjá gömlu meisturunum, enda fyrsta nýja tónlistin frá þeim í sjö ár. Nú er ég rosalega spenntur fyrir nýju plötunni, Gigaton.

Nú er klukkan svo orðin tíu og ég er gjörsamlega búinn á því. Þá er ekkert annað að gera en fara bara að sofa eins og öldungurinn sem ég er. Mikið verður gott að sofna í kvöld, aðallega af því að ég fæ kálfana á mér vonandi til að hætta að titra með góðum nætursvefni.

Þar til næst.