Kæri lesandi,

í dag fór ég í jarðarför. Manneskjan sem hvíldi í kistunni stóð mér ekki nærri, ég hafði aðeins hitt þessa ungu konu nokkrum sinnum og ekki átt löng eða djúp samtöl við hana, en sumir af hennar nánustu standa mér nærri. Þetta var með erfiðari jarðarförum sem ég hef setið. Auðvitað á maður ekki að gera upp á milli jarðarfara, en það er samt mín reynsla að það er einfaldlega erfiðara og þyngra að kveðja þegar viðkomandi deyr langt fyrir aldur fram, en það er að kveðja manneskju sem hefur átt langa ævi. Söknuðurinn er sá sami, en þegar maður hristir hausinn yfir fréttunum af því að manni finnst eins og einhverju hafi verið rænt, eitthvað óorðið sem átti fyrir að liggja, þá þyngjast tárin.

Þremur dögum eftir tuttugu og fimm ára afmælið sitt tók þessi unga kona sjálf ákvörðunina, hún sagði hingað og ekki lengra. Engan virtist gruna neitt, og fólk er skilið eftir með spurningar og engin svör, engin von um svör.

Ég sat í stórri kirkju, sneisafullri af fólki. Gospelþríeyki lék tónlist og frægur einsöngvari flutti fræg dægurlög sem voru viðeigandi. Presturinn talaði blíðlega með sinni þrumandi sterku röddu, andlit hans eins og meitlað úr steini, en hann fór vel með viðkvæm augnablik og sagði gamansögur úr lífi ungu konunnar. Fékk salinn til að hlæja, sem ég hefði aldrei trúað fyrirfram, en það gerðist nú samt.

Það safnast einhver orka í kirkju þegar unga fólkið er kvatt. Þessi orka er söknuður, hún er sárindi og jú, hún er kannski að einhverju leyti reiði líka, en fyrst og fremst er þessi orka komin af ást. Botnlausri ást fólks til þeirrar sem kveður og þeirra sem eiga um sárt að binda. Við Íslendingar erum oft eins og fjallið, stóísk út á við á meðan hraunið ólgar innra með okkur. Við erum almennt ekki mikið fyrir að bera sorgir okkar á torg, en stundum verða jafnvel stærstu stíflur að bresta. Stundum er krafturinn of mikill og það kemur eldgos. Þetta var eitt af þeim skiptum.

Ég er ekki mikill kirkjunnar maður, svo vægt sé til orða tekið, en ég held að guðshúsin séu hvergi jafn hæfileg eins og þegar sorgina ber að garði. Þá virka kirkjur fyrst og fremst sem staður fyrir fólk að koma saman og syrgja, kveðja og finna fyrir ást til hvors annars. Það er eiginlega hálf nauðsynlegt, og jafnvel talsverð huggun í því, að vita til þess að kveðjustundin sé athöfn sem við þekkjum öll vel og vitum fyrirfram hvernig verður, svona að mestu leyti. Nógu er stundin erfið þótt ekki þurfi líka að kvíða dagskránni sjálfri.

Eins og áður sagði fannst mér presturinn standa sig vel hérna, en trúleysinginn hnaut engu að síður um orð hans um að við yrðum að trúa því og treysta að hin látna væri nú komin á betri stað, að hún hvíldi í faðmi almættisins. Mikið hlýtur sá faðmur þá að vera stór. Mér hefur einmitt alltaf þótt fallegra að sjá manneskjur á hinn veginn. Við erum ekki ljósaperur sem eru færðar í annan lampa á öðru skrifborði. Við erum kertaljós. Í sögu mannkyns hefur ekki eitt kerti verið skapað með þeirri tilætlan að það endist að eilífu. Fegurð kertisins felst einmitt í því að það brennur niður og svo er það búið. Loginn er villtur og óstýrilátur en ef við erum heppin lendir hann aldrei í andvara. Okkur er ekki ætlað að brenna að eilífu. Fegurð logans felst einmitt í því að hann tekur enda. Lífið kemur og fer, þess vegna er það dýrmætt. Heilagt, myndu sumir segja.

Eins lengi og enginn blæs á logann langt áður en við brennum niður. Og að blása á sinn eigin loga? Sumt munum við aldrei skilja.

Nú sit ég heima hjá mér í myrkrinu, seint að kvöldi, algjörlega tómur. Þegar ég kom heim úr erfidrykkjunni fór ég beint í sófann með bók og heyrnartól, endaði svo á að stara út í tómið í drykklanga stund. Nokkrum klukkustundum síðar stóð ég loks upp úr sófanum án þess að hafa einu sinni opnað bókina. Það tekur á að kveðja, það er sárt að samhryggjast.

Þessi janúar hefur að mörgu leyti táknað endurkomu, endurvakningu, nýtt upphaf hjá mér. Ég er að endurheimta, ég er að skapa, ég er að vinna. Mér er sagt að það sé hollt að skrifa stundum setningar sem byrja á orðunum ‘mér líður’. Mér líður eins og tré sem býr sig undir vorið, þögult og þolinmótt, með það eina takmark í lífinu að vera tilbúið til að nýta sér tilkomu sólar og hlýju. Á sama tíma hefur dauðinn verið óþægilega nálægur, nær og fjær, eins og ég nefndi hér fyrir tveimur dögum. Þetta er undarleg staða. Þessum janúarmánuði má alveg fara að ljúka bráðum. Hann hefur verið endalaus.

Endum þetta á textanum úr lagi Charlie Chaplin, „Smile“, sem sungið var listavel af frægum einsöngvara í dag á meðan móðir strauk kistu barnsins síns fyrir framan fulla kirkju af fólki, og höfum í huga að við getum aldrei fyllilega skilið innra líf hvors annars. Það eina sem við getum boðið hvort öðru eru ástin og brosið.

Smile, though your heart is aching.
Smile, even though it’s breaking.
When there are clouds in the sky you’ll get by,
if you smile through your fear and sorrow,
smile and maybe tomorrow
you’ll see the sun shining through
for you.

Light up your face with gladness,
hide every trace of sadness.
Although a tear may be ever so near
that’s the time you must keep on trying.
Smile, what’s the use of crying?
You’ll find that life is still worthwhile
if you’ll
just
smile.

Þar til næst.