Kæri lesandi,
sólin skín hér í Sandgerðinni í dag og veðrið er blítt. Elmore Leonard sagði eitt sinn að maður ætti aldrei að hefja frásögn á lýsingu á veðrinu en fokk it, það verður að halda því til haga þegar við fáum (kalda) bongóblíðu í janúarmánuði. Annað væri vanþakklæti.
Dagarnir halda líka áfram að lengjast, það er vel. Nú tórir sólin alveg fram yfir fimm síðdegis svo að ég er ekki lengur að skila mér heim úr vinnu í myrkrinu. Ég þarf ekki meira til að næra sálina en að hafa ástæðu til að nota sólgleraugun við heimferðina síðdegis. Mér finnst líklegt að ég syngi með dægurtónlist í bílnum á eftir, með blákrómuðu flugmannagleraugun á nefinu. Gæti jafnvel átt það til að tromma á stýrið.
Annars reyndist kvíði minn fyrir tveimur dögum réttur. Ég geng um á tveimur óstyrkum, stirðum og aumum fótum. Mig verkjar í alla vöðva við það eitt að ganga að prentaranum og til baka, svo ekki sé minnst á tröppurnar niður á jarðhæð hér frammi á gangi. Þetta er ólíðandi ástand, en því miður er eina leiðin til að bæta úr þessu sú að fara oftar í ræktina, þjást aðeins meira, vopnaður þeirri vitneskju að eymslin endast styttra í hvert sinn. Engu að síður er þetta ástand.
Í kvöld stefni ég svo á að horfa á kóresku kvikmyndina Parasite, sem tilnefnd er til margra Óskarsverðlauna þetta árið. Að henni séðri á ég bara eftir að sjá tvær af myndunum sem eru tilnefndar sem besta mynd í ár, Jojo Rabbit og Little Women sem eru báðar í bíó. Ég hef ekki verið svona nálægt því að sjá allar myndirnar áður en verðlaunin eru veitt í áratugi. Ég verð að klára, hef tíu daga til stefnu, það ætti að nægja til að hoppa tvisvar í bíó. Ég lofa að uppljóstra um mitt atkvæði fyrir bestu mynd að þeim öllum séðum, þótt ekki sé ég meðlimur í Akademíunni.
Þar til næst.