Kæri lesandi,
í dag er síðasti dagur janúarmánaðar. Hann hefur verið alveg endalaus, en nú er þetta loksins búið. Ég hef tíundað blendnar tilfinningar mínar til þessa mánaðar á síðunni en þótt ég hafi stigið mörg jákvæð skref sjálfur og almennt séð haft það mjög gott þá get ég ekki sagt að ég sakni þessa mánaðar.
Bretar ganga í dag formlega úr Evrópusambandinu. Ég er þeirrar skoðunar að Brexit-ruglið toppi Trump-ruglið, en þessar sápuóperur hafa verið samhliða frá svona miðju ári 2016, sitt hvorum megin við hafið. Alltaf þegar ég sé einhverjar fáránlegar fréttir frá bandarískum stjórnmálum, alltaf þegar ég held að þar hafi rugludallarnir vestan hafs toppað sig, þá koma nýjustu fréttirnar frá London eða Brussel og ég man að nei, ekkert toppar Brexit. Það verða kenndir kúrsar um þessa tvo farsa í háskólum heimsins eftir eina, tvær og þrjár aldir, ef ekki lengur. Fólk mun rannsaka hvernig samfélag gat skotið sig jafn harkalega í fótinn og Bretar gerðu með Brexit.
Á leiðinni til vinnu í morgun kláraði ég að hlusta á bókina Educated eftir Töru Westover. Hún er alveg jafn mögnuð og fólk hefur lýst yfir. Það gerist í raun ekkert oft að svona ofhæpaðar bækur reynast standa undir væntingum, en það á svo sannarlega við hér. Þetta er ótrúleg bók, ótrúleg saga og Tara er ótrúleg kona. Ég vona að hún skrifi eitthvað meira og hlakka til að lesa það, hvað sem það kann að vera.
Og þar með er ég formlega kominn í lestrarfrí. Næsta bók er á dagskrá 18. febrúar og ég ætla að reyna eftir fremsta megni að halda þetta út. Lofa uppfærslum um þessar raunir mínar, stay tuned.
Talandi um mánaðamót, það er ljóst að við Íslendingar tökum tvær fréttir með okkur inn í febrúarmánuð. Þessar jarðhræringar á Reykjanesskaga við Grindavík eru mörgum okkar nærri, fólk er óþægilega minnt á Heimaey ’73 og samstarfsaðili minn úr Grindavík sagði mér í morgun að það væri helst eldra fólkið í bænum sem væri stressað og hrætt við hvað getur gerst. Það er auðvelt að hafa samúð með slíku, ég veit ekki hvernig mér myndi ganga að sofa í næsta nágrenni við svona hræringar. Við höldum áfram að vona það besta.
Svo er það Wuhan-veiran sem er efst á baugi heimsfréttanna. Við fáum uppfærslur á degi hverjum og hér á Íslandi er eins og allir andi djúpt með augun lokuð, bíðandi eftir að fyrsta tilfellið verði staðfest hér á landi. Á sama tíma berast fregnir af því að vísindamenn í Kína hafi sett lækningu veirunnar í algjöran forgang. Koma svo Kína, þið getið þetta, við treystum á ykkur!
Það er oft erfitt að vita hversu órólegur maður á að vera yfir fréttum af svona veirum. Þetta er að dreifa sér ansi hratt um hnöttinn, fjöldi dauðsfalla í Kína fer ört hækkandi. Í annan fótinn hafa svona veirur komið upp áður, aðallega í ofurþéttbýlum svæðum Asíu eða annars staðar fjarri okkur hér á skerinu, og svo orðið að engu áður en þær koma nálægt okkur. Í hinn fótinn hef ég hins vegar lengi haft þá sannfæringu að ofurfólksfjölgun okkar muni leiða til þess að við sjáum mannskæða veiru eða veirur á þessari öld. Kannski er Wuhan-veiran sú ógn? Vonum ekki, en ef maður lítur kalt á sviðið þá hefur náttúran lag á að halda jafnvægi á dýrastofnum og þótt við þykjumst stundum betri þá erum við enn háð náttúruöflunum og lífríkinu.
Í gærkvöldi horfði ég á suður-kóresku kvikmyndina Parasite. Hún er algjörlega frábær. Það er eiginlega ekkert hægt að lýsa henni, hún er svo margt í einu og algjörlega villt, fer á staði sem mann órar ekki fyrir svo að maður situr hálf opinmynntur, brosandi og hlæjandi og grettandi og hljóður á víxl. Ég hef aldrei séð kvikmynd sem er þessari lík, mæli heilshugar með.
Á hún að vinna Óskarsverðlaunin? Ég veit það ekki. Það er eiginlega ekkert hægt að bera saman eiturlyf við nokkrar tegundir kleinuhringja. Þessi mynd er öllu öðru ólík í ár, hún er klárlega ein besta mynd ársins en hin hefðbundna Akademía lægur sér eflaust nægja að hafa tilnefnt erlenda kvikmynd, sem gerist ekki það oft, og velur svo hefðbundnari stórmyndina 1917 sem er svo sem vel að því komin líka.
Síðdegis í dag ætla foreldrar mínir svo að taka eldri dóttur mína með sér í bústað. Þar fær hún algjöra VIP-meðferð í boði ömmu sinnar og afa. Við Lilja verðum eftir heima með þá yngri og dagskrá helgarinnar er að dekra við hana og sýna henni alla athyglina. Það verður gaman. Þetta verður góð helgi. Á sunnudagskvöld fer ég svo í Superbowl-partý, það er komið að úrslitum bandaríska ruðningsins, stærsta íþróttaviðburði ársins vestan hafs. Vinur minn hefur lofað kjúklingavængjum og gráðostasósu, ég hef á móti lofað spennandi leik og svo verður alltaf hægt að smjatta á hálfleikstónleikunum.
Febrúar. Helgi. Dekur og Superbowl. Þetta verður frábært.
Þar til næst.