Kæri lesandi,
myndin hér að ofan er tekin í Heimsklassanum í Hafnarfirði í morgun. Það kostar svita og blóð að fara þessa slóð. Bein lei-híííííð, gatan liggur greið …
Í dag fórum við hjónin í bíó með þá yngri. Systir hennar var í bústað með ömmu og afa, og því fékk hún dekurdag. Bíóferð er svo sem ekki í frásögur færandi nema að fyrir myndina sáum við nokkrar stiklur úr væntanlegum teiknimyndum. Ein af þeim er ný mynd um tröllin (e. Trolls) sívinsælu. Í þessari mynd fagna tröllin fjölbreytileika sínum, þau eru misjöfn og spila alls konar tónlist, þar á meðal hip-hop og popp og rapp. En svo birtist vonda tröllið! Það tröll spilar öðruvísi tónlist, en það er ekki nóg því þetta tröll ætlar sér að ná yfirráðum og neyða öll hin tröllin til að spila og hlusta á sömu tónlist.
Vonda tröllið er rokkari!
Ég stóð næstum því upp og gekk út. Fyrir hönd okkar rokkhundanna, þá var mér stórlega misboðið! Nú sit ég og skipulegg væntanlega herferð gegn SAM Bíóum og hvaða öðru húsi hér á landi sem dirfist að sýna ungum, áhrifagjörnum börnum þessa mynd. Svona ákúrur í garð rokksins skulu ekki líðast!
Í kvöld hef ég svo setið og horft á Any Given Sunday, stórmynd Oliver Stone um bandaríska ruðninginn. Þetta er fínasta upphitun fyrir Ofurskálina sjálfa annað kvöld. Besta atriðið er að sjálfsögðu mögnuð ræða þjálfarans Tony D’Amato, leikinn af Al Pacino sjálfum, um hvernig íþróttir séu eins og lífið sjálft og að allt snúist um að berjast fyrir hverjum metra, að finna fólk sem er reiðubúið að berjast um þennan metra með þér. „Life is a game of inches“, segir hann og meinar það.
Þetta er mögnuð þrumuræða, en það er ekki hægt annað en að brosa að því að hann skuli mæla þessa djúpu speki fyrir framan hóp af þursum sem hafa fram að því í myndinni varla ratað á eigið rassgat. Ekki það, þeir fara auðvitað út og spila frábærlega eftir að hafa hlýtt á ræðuna.
Þannig eru hópíþróttir. Þetta snýst stundum svolítið mikið um að mynda stemningu sem heildin getur trúað á, selja þeim drauminn, fá þá til að trúa á sjálfa sig og hvor aðra. Kannski snýst lífið sjálft að miklu leyti um það líka.
Átta mínútum síðar missir einn leikmanna andstæðingsins auga, sem minnir okkur svo á að taka kvikmyndir, leikinn sjálfan og jú lífið aldrei of alvarlega. Ég hef það í huga þegar ég tapa mér yfir leiknum annað kvöld.
Þar til næst. Gleðilegan febrúar!