Kæri lesandi,
vinur minn sendi mér nýyrði í dag. Hann ætlaði að skrifa ‘eftirsóttur’ en klúðraði því og sló í staðinn inn ‘eftirsáttur’. Við ræddum þetta aðeins og vorum sammála um að þetta væri gott nýyrði. Eftirsáttur, þegar þú heldur að eitthvað sé neikvætt en svo finnurðu sátt yfir því hvernig fór.
Dæmi: það er búið að vera mikið að gera um helgina. Ég hafði áhyggjur af því að þetta myndi reynast hálfgerð þrotraun (annað nýyrði sem við bjuggum til á milli okkar nýlega), það er að ég myndi sakna þess að hafa ekki náð að slaka á meira en mér fannst ég fá út úr viðburðaríkri helgi, en þess í stað er ég eftirsáttur.
Í kvöld er svo bandaríska Ofurskálin. Ég er á leið í partý að smjatta á kjúklingavængjum, horfa á íþróttir og hlæja enda ekkert nema grínistar í þessu partýi. Leikurinn sjálfur er svo aðalatriðið, í ár mætast San Francisco 49ers og Kansas City Chiefs. Ég hef hrifist mikið af báðum liðum í ár en verð að viðurkenna að ég hallast aðeins að Chiefs. Aðallega af því að ég held að ef 49ers sigra gerist það líklegast með því að vörnin þeirra drottnar og þeir innbyrða mulningssigur, án mikilla flugelda. Ef Chiefs vinna eru meiri líkur á að það gerist með látum, og líklega mun töframaðurinn Patrick Mahomes vera þar í lykilhlutverki. Ég held alltaf fyrst og fremst með því að úrslitaleikurinn verði skemmtilegur, og því hefði ég ekkert á móti því ef Chiefs ynnu sigur í smá shootout-stíl.
Ég verð samt að fylgja því sem beinið í nefinu segir og spá 49ers 27-17 sigri. Sjáum hvort ég hef rétt fyrir mér.
Þar til næst.