Kæri lesandi,

ég hafði næstum því rétt fyrir mér í gærkvöldi. Þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum voru 49ers með 20-10 forystu gegn Chiefs. Ég hafði spáð 49ers 27-17 sigri, þremur snertimörkum og tveimur vallarmörkum gegn tveimur og einu. 49ers höfðu skorað tvö snertimörk og tvö vallarmörk, Chiefs eitt og eitt. Chiefs misstu boltann og þótt ég væri pínu að halda með Chiefs þá var ég eiginlega samt að vona að 49ers myndu skora til að innsigla sigurinn, og svo næðu Chiefs einu uppbótarsnertimarki í lokin og þá væri ég orðinn sannspár. Þetta var til umræðu í partýinu þar sem ég var og um stutta stund var eins og viðstaddir dáðust að því hvað ég hafði lesið leikinn hárrétt fyrirfram.

Nema, 49ers skoruðu ekki. Þeir misstu boltann nærri því strax, Chiefs komust aftur í sókn og náðu loksins að brjóta frábæra vörn 49ers á bak aftur. Þeir skoruðu þrjú snertimörk á síðustu sjö mínútunum, tuttugu og eitt stig án svars, og innbyrtu því 31-20 sigur. Verðskuldað, þótt 49ers hafi leitt megnið af leiknum, því þeir sem eru yfir þegar flautað er til leiksloka eiga skilið að vinna. Þannig virka jú einu sinni kappleikir.

Ég velti því fyrir mér á leið heim úr partýinu um miðja nótt hvort mér hefði virkilega verið nokkur greiði gerður ef ég hefði reynst sannspár. Ég hafði flett því upp yfir miðjum leik (og mögulega jinxað þetta, gæti einhver sagt) og ef ég hefði veðjað fimmara á spá mína hefði ég unnið sem nemur einni drjúgri utanlandsferð fyrir tvo til sólarlanda. En ég hafði ekki veðjað á úrslitin, setti ekki krónur undir kjaftinn. Ég hefði sennilega skammast í sjálfum mér fram eftir vikunni ef ég hefði reynst sannspár og ekki veðjað á’ða.

Dagurinn í dag var síðan hin mesta bugun. Yngri dóttir mín tók óvænt af mér svefninn í gærmorgun, en ég hafði vakað aðeins frameftir miðnætti á laugardagskvöld til að „undirbúa“ fyrir ruðningspartýið, og svo ekki fengið að sofa nema nokkra klukkutíma í gærmorgun. Í morgun náði ég rúmum fjórum tímum áður en ég staulaðist á fætur og náði einhvern veginn að mæta í vinnu, nær svefni en vöku. Auðvitað var svo brjálað að gera í vinnunni. So it goes.

Ég vinn þetta upp í kvöld, enda vanur í þeim fræðum að fórna svefni fyrir íþróttagláp. Það væri samt í alvöru þægilegra ef Bandaríkin væru aðeins nær okkur og þetta byrjaði ekki alltaf á miðnætti.

Á morgun fer ég svo til læknis, aftur. Ég hóf hringferðina miklu á heimilislækni í desember, nokkrum dögum fyrir jól, og ég lýk henni með öðrum tíma hjá sama lækni á morgun. Í millitíðinni hef ég farið í heljarinnar pakka, hitt tvo sérfræðinga og sjúkraþjálfara og farið í blóðprufu og þrekpróf og alls konar. Ég ákvað í desember að taka allan pakkann þegar ég fengi loks að byrja að æfa eftir fótbrot og ég sé ekki eftir því. Ég hef mjög skýra sýn á hvar ég er staddur, hvað ég er að gera og hvert ég stefni. Ég mæli með þessu, að leita upplýsinga áður en lengra er haldið. Á morgun fæ ég vonandi klapp á öxlina. Svo fer ég beint í ræktina. En fyrst ætla ég að sofa í alla nótt, stefnan er sett á lágmark átta tíma, helst svona níu og hálfan. Ef það tekst þá eru mér allir vegir færir á morgun. Svo er fótboltaleikur í sjónvarpinu annað kvöld, kannski veðja ég á úrslitin ef ég þykist vita hvernig fer …

Þar til næst.