Kæri lesandi,

í gærkvöldi horfði ég á fimmta þáttinn af The Outsider á Stöð 2, og ég verð að segja að ég er himinlifandi með þessa þáttaröð. The Outsider er stök þáttaröð, bara tíu þættir og búið, frá bandarísku sjónvarpsstöðinni HBO. Sagan er byggð á samnefndri skáldsögu Stephen King frá árinu 2018, teymið á bak við að færa söguna yfir í sjónvarpsþætti eru Richard Price, sem er þekktur handritshöfundur og hefur m.a. skrifað fyrir þætti eins og The Deuce, The Night Of og The Wire auk kvikmynda eins og Sea of Love og Ransom, og hinn frægi leikari Jason Bateman sem hefur einnig leikstýrt kvikmyndum. Bateman leikstýrir hér fyrstu tveimur þáttunum og einnig er búist við að hann leikstýri lokaþættinum, auk þess að leika eitt aðalhlutverkið.

Auk Bateman fara Ben Mendelsohn, Julianne Nicholson, Yul Vazquez, Cynthia Erivo, Marc Menchaca og fleiri úrvals með helstu hlutverk.

Ég las bók King þegar hún kom út. Söguhugmyndin er einföld en alveg mögnuð; Terry Maitland, þjálfari hafnaboltaliðs skóladrengja í bænum Flint City í Oklahoma (sem af einhverjum ástæðum er fært yfir til Cherokee City í Georgíu) er handtekinn og sakaður um svívirðilega misþyrmingu og morð á ungum dreng þar í bæ. Öll gögn benda þráðbeint á hann, bæði finnast sæði og munnvatn og blóð og fingraför á vettvangi glæpsins sem taka af allan vafa um að hann sé morðinginn, og þar að auki voru vitni að honum blóði drifnum á ferðum í kringum vettvang glæpsins fyrir og eftir, vitni sem sá hann lokka strákinn upp í hvítan sendibíl, og svo framvegis. Í stuttu máli sagt er þetta eins skothelt mál og þekkist: Terry Maitland drap drenginn.

En svo kemur í ljós að Terry Maitland er einnig með skothelda fjarvistarsönnun. Hann var í öðru fylki á ráðstefnu, hvar hann sést í beinni útsendingu að spyrja spurninga á pallborðsumræðum, skildi eftir sig fingraför og vegsummerki, fjölmörg vitni muna eftir honum og svo framvegis.

Sem færir okkur að rannsóknarspurningu sögunnar: hvernig getur sami maður verið á tveimur stöðum í einu, á sama tíma? Getur verið að Terry Maitland sé sekur og saklaus?

Saga King er feykisterk, hún ber með sér allt það sem gerir hann að svo frábærum rithöfundi en þegar líður á söguna birtast einnig sumir af kækjum hans sem rithöfundar, og sagan fer á staði sem að mínu mati draga aðeins úr spennunni. Sérstaklega fannst mér hvimleitt þegar hann lætur persónurnar setjast niður og útskýrir, um miðja bók, eiginlega nákvæmlega alla ráðgátuna svo að engar spurningar sitja eftir. Aðeins á eftir að leiða fléttuna til lykta. Þetta fannst mér hleypa of miklu lofti úr blöðrunni svo að síðasti þriðjungur bókarinnar náði aldrei sömu hæðum en hinir fyrri tveir, þrátt fyrir að vera ágætur fyrir því.

Mér sýnist sem sjónvarpsþættirnir ætli ekki að gera sömu mistök. Hafandi lesið bókina veit ég hvaða leyndardóma sagan hefur að geyma en það hefur ekki hindrað mig í að vera á nálum yfir hverjum þætti. Mikilvægar upplýsingar koma í ljós smám saman, á máta sem mér þykir eðlilegri fyrir rannsóknarferli lögreglumanna og einkaspæjara, og með hverri uppljóstrun eykst einfaldlega hræðslan við það sem er í gangi, í hvert sinn sem maður skilur aðeins betur hvað er á seyði hækkar óhugnaðarstigið til muna og allt færist nær suðumarki.

Ég hef mjög ákveðnar skoðanir á spennusögum, hvort sem ég er að lesa þær eða horfa á þær. Fyrir mér eru of margar spennusögur fátæklega spunnar og snúast nær eingöngu um að giska á hver framdi glæpinn. Á móti má finna fullt af spennusögum sem þykjast vera spennandi en er meira annt um til dæmis fallegan prósa og áhugaverðar persónur og skeyta engu um að fléttan sé einnig dramatísk og óvænt og spennandi.

Ef við teiknuðum Venn-skýringarmynd af þessu, þar sem annar hringurinn héti „Spenna“ og hinn héti „Fegurð“, eða kannski væri „Flétta“ og „Dýpt“ betra, þá eru að mínu mati allar bestu spennusögurnar þær sem snerta á báðum hringum, og myndu því staðsetjast á skýringarmyndinni þar sem þetta tvennt skarast. Skáldsaga King er akkúrat þar fram að því að hann hleypir lofti úr blöðrunni, og eftir það færist hún alveg yfir í „Fléttu“-hringinn, missir dýptina. Sjónvarpsþættirnir, nú þegar ég er hálfnaður, eru ennþá í miðjunni. Vonandi halda næstu fimm þættir sér þar.

Ég veit ekki hvað ég horfi á mikið af glæpaþáttum á hverju ári, en það er slatti. Ég læt alla þessa vikulegu þætti eiga sig, eins og CSI eða Law & Order, af því að þeir snúast eingöngu um fléttuna og hafa engan áhuga á dýpt eða fegurð. Eins nenni ég ekki þáttum sem leita í endalausa dýpt en eru að því er virðist með ofnæmi fyrir góðri framvindu sögu. Ég er mjög fljótur að afskrifa þætti sem ég byrja að horfa á og sýnist stefna í aðra hvora áttina. Það eru einfaldlega ekki nógu margir klukkutímar í vikunni til að sóa tímanum í efni sem mun hvorki valda mér þönkum né kenna mér neitt um lífið. Ekki einu sinni þótt það efni sé íslenskt (sorrý, Brot).

Mig minnir að ég hafi síðast beðið spenntur eftir vikulegum þætti af spennuþáttum þegar ég horfði á True Detective fyrir ári, þriðju þáttaröð. Frá því að fyrsta þáttaröð True Detective var í sjónvarpinu fyrir sex árum – en ég er enn á því að það er besta staka „season“ af sjónvarpi sem ég hef séð – hef ég ekki verið gripinn af mörgum slíkum þáttaröðum. Nú bætist The Outsider fyllilega í þann flokk. Ég sé nánast eftir því að hafa lesið bókina fyrst, því ég veit að ég myndi njóta mín enn betur ef ég hefði ekki hugmynd um hvað í fjandanum er í gangi í þessum bæ. En á móti þá veit ég hvert þetta stefnir og ég get ekki beðið.

Sjónvarpsþáttaröð ársins er sem sagt sýnd núna strax í janúar og febrúar. The Outsider. Fín King-bók varð að mögnuðum sjónvarpsþáttum. Ég mæli með.

Þar til næst.