Kæri lesandi,
enn set ég mér markmið. Það er orðið tímafrekt að halda utan um öll markmiðin, hvað þá að fylgja þeim eftir. Í gær fór ég til læknis sem tilkynnti mér niðurstöður gagngerrar læknisskoðunar sem ég fór fram á að yrði unnin við það tilefni að ég mætti byrja að hreyfa mig og fótinn á ný. Hún tók blóð- og þvagprufur, ég fór í þrekpróf og hvaðeina. Og niðurstaðan var þessi: það er nákvæmlega ekkert að mér nema að mig vantar smá D-vítamín. Þannig að ég keypti eitthvað sprey og spreyja D-vítamínskammti innan í kinnina á mér daglega.
Ég bjóst eiginlega við meiru, en það er alltaf gott að fá ‘clean bill of health’. En nú er það sem sagt mitt markmið að auka D-vítamínmagnið í líkamanum. Það ætti að nást nokkuð auðveldlega, spreyið og lýsistöflurnar sjá um það.
Ég hef samt fleiri markmið. Ég var aðeins að skoða þessa síðu í morgun, skamma sjálfan mig fyrir að hafa misst úr of marga daga í janúar. Ég skrifaði 26 færslur á 31 degi í síðasta mánuði. Sleppti sem sagt úr 5 dögum. Í desember sleppti ég bara einum degi og í nóvember tveimur. Það er því hægt að segja að ég hafi slegið slöku við í janúar. Þannig að nú hef ég það markmið að sleppa ekki úr degi í febrúar.
Svo breytti ég um lit á síðuhausnum. Guli litur janúarmánaðar vék fyrir djúprauðum febrúarlit. Ég ætla að velja nýjan lit um hver mánaðamót, það er annað markmið.
Næsta markmið, svona þegar flest allt annað er farið að rúlla nokkuð vel í mínu lífi, ég mæti meira að segja í ræktina án þess að þurfa að segja frá því, eru skrifin. Ég hef ekki enn sett mér markmið þar en ég hef það markmið að setja mér markmið innan skamms. Ég er aðeins að gæla við smásöguhugmyndirnar sem ég þarf að fara að koma í ritað mál, og svo er ég einna helst að þróa tvær stærri sögur. Mig langar að vera tilbúinn með einhvers konar handrit í sumarlok, til að geta svo endurskrifað og fullunnið í haust og leitað mér að útgefanda í upphafi næsta árs. Mig langar það, en það er ekki orðið að markmiði ennþá. Ég stefni á að stefna á það.
Þar til næst.