Kæri lesandi,
hugsanir mínar eru á reiki, hafa verið á reiki í mestallan dag. Ég keyrði til vinnu í myrkri og sterkum hliðarvindi, átta tímum síðar keyrði ég til baka með bláu sólgleraugun á nefinu og dásamaði hversu mikið þetta land breytist þegar snjórinn er farinn. Það kemur í ljós, nýtur sín. Litirnir eru ekki einu sinni farnir að skarta sínu skærasta, en þeir eru þarna. Smám saman gerist það. Tilveran er ekki lengur svarthvít.
Ég beygði af leið þegar ég kom í Hafnarfjörðinn. Fór niður í bæ á kaffihús og spjallaði í tvo tíma við kæran vin, verðlaunaðan metsöluhöfund. Ég fylltist innblæstri. Það er eitthvað að gerast, inní mér syngur einhver vitleysingur sem þarf að fá athygli. Það styttist í þessu.
Í morgun skoðaði ég fréttir af fyrirhugaðri uppbyggingu hafnarsvæðisins hér í bæ. Ég hristi hausinn. Hló smá. Fann aðallega til pirrings, eða sorgar, eða eitthvað. Þessu föla samfélagi er vel lýst á myndunum. Andlitslaust fólk röltir um einhverja draumaútgáfu af Hafnarfirði, eins og allir dagar séu sautjándi júní, eins og fleiri hópar fólks séu daglega á sveimi í kringum höfnina. Eins og það sé alltaf bongó. Ég starfaði of lengi þarna til að taka þátt í þessu kjaftæði. Veit betur, því miður. Kannski mun ég einn daginn bjóða fjölskyldunni í kvöldverð í Mathöll Hafnarfjarðar, sem mér sýnist eiga að rísa þar sem gamli vinnustaðurinn minn brann í fyrra eftir þrjátíu og tvö góð ár á sama stað. Kannski, en ég efa það. Og allar blokkirnar, og hótelin, maður lifandi! Hafnarfjörður er nýja Singapúr, það er alveg á hreinu, allavega ef þú spyrð ráðamenn. Ég skal glaður hafa rangt fyrir mér, en fátt af þessu er raunhæft. Í besta falli verður bærinn hálfnaður með þessa uppbyggingu þegar túristabólan springur. Kannski fást íbúðir á slikk þarna eftir nokkur ár, þar sem fiskibræðslan og brettasmiðjan og bílasalan standa núna. Kannski, en ég efa það.
Þetta er frekar myrk færsla. Hún fjallar heldur ekki um neitt. Hugsanir mínar eru á reiki. Það má. Það er eitthvað að gerjast, nýjar sögur hafa tekið sér bólfestu í fermetrum hugans. Þá verð ég oft svona, íhygginn og alvarlegur, gagnrýninn og rumskandi. Þangað til ég man eftir að taka sjálfan mig ekki of alvarlega. Leyfum veröldinni að taka lit, svo skal ég sýna lit. Handan við bláu gleraugun; grænt grasið, blá fjöllin, brúnar sprungurnar í svörtu hrauninu. Tilveran er í það minnsta ekki lengur svarthvít.
Þar til næst.