Kæri lesandi,

enn kom laugardagur, og enn fór hann jafnharðan. Ég hafði tvö verkefni í dag, annað tókst betur en hitt. Við máluðum herbergi Gunnu fyrir hádegið, vorum frekar fljót að því og hún fær að flytja aftur inn á morgun eftir að hafa sofið í stofunni í tvær nætur. Á næstu dögum mun hennar vígslu inn í unglingsárin formlega ljúka, nú eru allir bleikir litir horfnir úr herberginu og í staðinn komnir smekklega grágrænir, auk þess sem hún fær bráðum alvöru hillur fyrir skartgripaskrínið og bækurnar og allt hitt sem unglingar vilja hafa í herberginu. Mér finnst ekkert svo langt síðan við endurhönnuðum herbergið hennar í tilefni þess að hún byrjaði í grunnskóla, en nú í haust fer hún í sjöunda bekk. Tíminn flýgur.

Seinna verkefnið gekk ekki eins vel. Ég skutlaði henni svo með vinkonu sinni í bíó eftir hádegið og ætlaði að kíkja á tvo staði og skoða derhúfur á meðan þær horfðu á myndina. Myndin sem um ræðir heitir því fulla nafni Birds of Prey or The Fantabulous Emancipation of one Harley Quinn. Reynið að segja þetta hratt þrisvar í röð án þess að fipast. Stelpur á unglingsaldri eru skiljanlega veikar fyrir Harley Quinn og bíóhúsið í Kringlunni þekkir sinn markhóp og auglýsti bæði Marvel’s Black Widow og DC’s Wonder Woman: 1984 áður en Harley Quinn hóf sögustund sína. Þannig að Gunna ætlar a.m.k. tvisvar í viðbót í bíó á þessu ári að horfa á stelpurnar sínar. Þetta er auðvitað mjög vel, stelpur eiga að geta farið í bíó og séð sína líka berjast við vondu kallana, rétt eins og strákarnir hafa alltaf getað.

Hins vegar setti myndin óvæntan stein í götu mína. Ég var á leið út úr Kringlunni þegar Gunna hringdi á eftir mér og sagði að þær fengju ekki að fara inn á myndina nema í fylgd með fullorðnum. Þá er þessi mynd víst bönnuð innan sextán, og þær bara tólf. Ég varð að gjöra svo vel og snúa við og fara með þeim inn á myndina. Myndin sjálf var svo frekar saklaus, alveg laus við kynlíf og það grófasta í henni er að Harley Quinn er svolítið fyrir að fótbrjóta fávita. Jújú, óþokkinn Ewan McGregor lætur skera andlitið af fjölskyldu sem braut af sér, en það er talað um það en ekki sýnt. Annars var það helst ljótt orðbragð. Stelpurnar virtust allavega ekki trámatíseraðar á leiðinni út, hlæjandi og leikandi atriði úr myndinni.

En, ég fór sem sagt á Birds of Prey or The Fantabulous Emancipation of one Harley Quinn í dag. Hún er mjög skemmtileg. Sver sig í ætt við Deadpool-myndirnar. Mæli með, ef þið eruð fyrir slíkt. Ég er fyrir slíkt. Þetta var gott.

En fyrir vikið fór derhúfuleiðangurinn fyrir ofan garð og neðan. Því var nú ver og miður. Ég verð að bæta úr því á morgun.


Annars þykir mér leiðinleg þessi örvænting sem grípur mig stundum þegar helgarnar bera að garði. Mér finnst ég alltaf skulda fjölskyldu, vinum og sjálfum mér að gera sem mest um helgar, ekki af því að ég sé einhver þræll sem sér aldrei til sólar utan vinnu hina fimm dagana, heldur af því að þá er öll fjölskyldan í fríi saman í tvo daga. Saman er lykilorðið hérna. Það virðist svo mikil sóun að ætla bara að sitja við skriftir eða lestur eða að horfa á fótbolta á meðan stelpurnar mínar og eiginkonan hafa lausan tíma. Þannig að við troðum eins miklu inn í dagskrá helganna og við getum, og samt örvænti ég yfir því að við séum ekki að gera nóg, séum ekki að hámarka fjörið fyrir dætur okkar.

Þetta er auðvitað ákveðið form af svikaraheilkenni, og sem slíkt má það fokka sér. Ég stefni á að vera afslappaðri og sáttari um næstu helgi. Á morgun er hins vegar sunnudagur, og það eina sem er á dagskrá er að finna mér derhúfu. Þetta skal hafast, enga örvæntingu!

Þar til næst.