Kæri lesandi,

ég stóð ekki við gefin orð hér fyrir einhverjum tíu dögum. Á þessum tíma tókst mér ekki að sjá Jojo Rabbit og Little Women í bíó eins og ég hafði ráðgert, og því er ég enn eitt árið ekki búinn að sjá allar þær myndir sem eru tilnefndar sem besta myndin á Óskarsverðlaunum, þótt ég hafi verið nær því í ár en oftast.

Leggjum þær tvær myndir til hliðar og hendum samt í smá samantekt yfir það helsta. Og af því að ég er íslenskur skulum við auðvitað byrja á bestu tónlist. Ísland hefur farið langt fram úr sér að venju í dag, allir fjölmiðlar verið fullir af Hildi „okkar“ Guðnadóttur, þessum merkasta listamanni Hafnarfjarðar árin 2019 og 20. Hún er í prófíl, hún er í viðtölum, við sjáum myndasyrpur og spjall við vini og ættingja, við fylgjumst með því hvernig hún byrjaði daginn í Los Angeles, í hvaða fyrirpartý hún fór, hverju hún ætlar að klæðast. Það er skemmst frá því að segja að það verður talsverð bjartsýnisþynnka yfir landinu á morgun ef hún vinnur ekki. Nýstárleg þynnka, en engu að síður ansi mikill tremmi.

Ég ætla að spá því að Thomas Newman vinni. Hann hefur verið tilnefndur tólf sinnum án þess að vinna og tónlist hans í ár við myndina 1917 er svo góð að ef hann vinnur get ég eiginlega ekki verið fúll. Hann á þetta alveg jafn mikið skilið og Hildur í ár. Svo er mögulegt að John Williams fái þetta fyrir Stjörnustríðsþríleikinn sem hann hefur enn og aftur samið geggjaða tónlist fyrir. Randy Newman og Alexandre Desplat koma minna til greina þrátt fyrir að það séu eiginlega bara sleggjur tilnefndar í ár. Það er í raun ótrúlegt ef Hildur vinnur með þessa fjóra heimsfrægu meistara á móti sér. Hún gæti allt eins unnið en svartsýnisröddin hefur betur og ég spái Tomma Nýmanni sigri. Samt, koma svo Hildur!

1917 verður valin besta myndin og er vel að því komin. Í raun gæti ég alveg unað Joker, Ford v Ferrari og Parasite öllum að vinna styttuna í ár. Ef ein af þessum fjórum vinnur verð ég alveg sammála því, enda allt magnaðar myndir. Persónulega held ég að ég hallist hreinlega að Parasite, hún trónir efst af þessum fjórum fyrir mér, en allt eru þetta glæsileg framlög í ár. Ég get sem fyrr segir ekki tjáð mig um Jojo Rabbit og Little Women, eins finnst mér Once Upon a Time in Hollywood ekki jafn sterk og margar fyrri myndir Tarantino og því ekki vænleg til sigurs. Og ég verð hreint og beint fúll ef The Irishman eða The Marriage Story vinna. Þær eru klárlega tvær sístu myndirnar tilnefndar í ár. Sorrý, Netflix. Spái 1917 þessu, myndi sjálfur kjósa Parasite.

Joaquin Phoenix og Renee Zellweger verða valin bestu leikarar, það virðist lítill vafi leika á því einhvern veginn. Ég veit minna um aukaleikarana, ætli Brad Pitt vinni ekki fyrir karlhlutverk enda hefur hann verið að vinna leikaraverðlaun síðustu vikurnar, og konumegin veit ég ekki en Laura Dern má alveg vinna fyrir mér, hún var það besta við The Marriage Story.

Sam Mendes verður valinn besti leikstjórinn fyrir 1917 og það réttilega, og sú mynd vinnur örugglega flest af tækniverðlaununum. Ég læt hér staðar numið, enda ekki séð mikið af teikni- eða heilmildar- eða stuttmyndum ársins, né erlendu myndunum en Parasite hlýtur að vinna þau verðlaun fyrst hún er einnig tilnefnd sem besta myndin.

Að lokum spái ég því að allt of margir muni skjóta á Trump í ræðum sínum og að það verði einhver skandall aftur eins og fyrir tveimur árum þegar Warren Beatty tilkynnti um rangan sigurvegara fyrir bestu mynd. Ég ætla alls ekki að vaka yfir þessu en væri alveg til í að vakna í einhvern svoleiðis farsa. Það væri gott með morgunkaffinu, smá schadenfreude.

En, aftur, áfram Hildur!

Þar til næst.