Kæri lesandi,

ég reyndist hafa rétt fyrir mér með Óskarinn … og rangt líka. Er það ekki alltaf svo? Hildur vann og Ísland hefur tekið sigurhring í allan dag, sem er gaman. Loksins fengum “við” eina styttu! Hildur er auðvitað komin í öðlingatölu hér heima, en það fyndna við þetta er kannski það að sumu fólki mun bregða þegar Hildur snýr aftur heim til … Berlínar. Já, hún býr ekki á Íslandi. Af því að hér er ekki efnahagsumhverfi sem gerir sjálfstætt starfandi listafólki kleift að vinna fyrir sér við sköpun. Hún býr í Berlín, gott fólk, eins og allt of mikið af listafólkinu okkar. Kannski milllendir hún hér á leiðinni heim, heilsar upp á Guðna og Elizu og svona.

Ég hafði annars rétt fyrir mér með leikaraverðlaunin, fátt sem kom sem sagt á óvart þar. Ég hafði hins vegar rangt fyrir mér með bestu myndina, þar vann myndin sem ég hefði kosið. Ég reyndist hafa of litla trú á akademíunni í ár. Parasite er sem sagt besta mynd ársins og það er vel. Geggjuð mynd. Meistaraverk. Fyrir helgina las ég kenningu um að myndin væri metafóra fyrir samskipti Norður- og Suður-Kóreu og ég er enn að hugsa um þá kenningu. Þessi mynd virkar á svo mörgum sviðum, það er með ólíkindum. Bong Joon Ho var einnig verðlaunaður fyrir bestu erlendu myndina, eðlilega, bestu leikstjórn og besta handrit. Hann á þetta allt skilið, blessaður, enda bestur í ár, punktur.


Annað sem ég hugsaði aðeins um í dag er vinsæl viðtalaspurning. Oft er fólk spurt hvaða frægu manneskju viðkomandi vildi helst bjóða með sér í mat? Veldu tvö celeb, lífs eða liðin. Þetta er skrýtin spurning. Ég man að Chuck Klostermann jarðaði þessa setningu einhvern tímann í viðtali (finn ekki linkinn), sagði einfaldlega að hvaða látna manneskja sem er væri margfalt áhugaverðari kvöldverðargestur en hvaða lifandi celeb sem er. Af því að þú getur spurt frænku þína heitna hvernig það var að deyja, en Brad Pitt getur ekki svarað sömu spurningu. Þetta var fyndin jörðun hjá Chuck.

Sjálfum er mér skítsama um celebin, lífs eða liðin. Ég gæfi ansi margt fyrir að komast einu sinni enn í smurbrauð hjá ömmu og afa fyrir vestan, hvíli þau í friði. Stundum get ég lokað augunum og fundið lyktina af píputóbaki afa, strokið krulluðu hárinu á hundinum hans, heyrt rödd ömmu á ný. Þetta er samt á bak við ansi þykka móðu. Tíminn er algjör trunta.

Ef ég yrði að velja frægt fólk myndi ég kannski velja einhvern eins og Kurt Cobain, og kannski Genghis Khan líka. Ég myndi spyrja Kurt af hverju hann gæti ómögulega sæst við sjálfan sig, ekki í þeirri von að afstýra því sem varð heldur kannski frekar til að skilja hvernig svona farsæll maður gat haft svona mikla óbeit á sjálfum sér, og hvaða von við hin eigum þá fyrst hann gat ekki elskað sjálfan sig. Genghis myndi ég einfaldlega spyrja hvort þessar sögur af honum væru allar sannar. Drap hann virkilega sinn fyrsta mann fimm ára gamall? Ég held að Genghis yrði góður gestur í matarboði, eins lengi og maður léti hann ekki einan með kvenfólkinu. Af því að hann svaf hjá öllum konum sem hann hitti, þið skiljið.

Að lokum, góðar fréttir. Ég fann derhúfu í gær. Hún er góð til síns brúks. Þá er það frá.

Þar til næst.