Kæri lesandi,

hér eru nokkrir ótengdir molar:

Í dag er þriðjudagur. Þetta er mánudagslegasti þriðjudagur sem ég hef upplifað í langan tíma. Það er enginn rökstuðningur á bak við slíka skoðun, frekar bara einhver tilfinning. Gærdagurinn var ekkert frábrugðinn öðrum mánudögum, en samt er ég með þennan fiðring í litlutá, lykt í nefinu, stífleika í öxlum. Eitthvað segir mér að þetta verði brekka í dag. En þá spyr ég sjálfan mig á móti, er ég að skapa minn eigin veruleika þegar ég læt slíkar hugsanir eftir sjálfum mér? Er ég að skapa mína eigin brekku með því að sannfæra mig um að leiðin liggi upp á móti? Spurning. Hér er kannski tækifæri til að taka tíu mínútna jákvæða hugleiðslu, snúa hugsanaganginum við og sjá hvort restin af deginum fylgir ekki á eftir.


Í síðustu viku dásamaði ég þættina The Outsider. Um leið talaði ég um að atriðið þar sem allt er útskýrt fyrir aðalpersónum bókarinnar, og um leið lesendum, hafi hálfeyðilagt bókina fyrir mér því það hafi tekið alla spennuna úr bókinni, og að ég vonaði að það sama myndi ekki gerast í þáttunum. Nema hvað, í gær horfði ég á þátt 6 af 10 og þar gerist einmitt þetta, ein persónan útskýrir hvað er í gangi fyrir hinum aðalpersónunum. Og svo gerðist nokkuð undursamlegt; allt varð vitlaust. Hádrama og allt í óreiðu. Persónur skiptust í tvær fylkingar, enginn treystir neinum öðrum, allt virðist fyrir bí en um leið hefur ákveðnum fræjum verið sáð sem munu klárlega taka festu. Lykillinn er samt sá að spennan jókst enn frekar. Þessir þættir halda áfram að vera alveg við suðumark, og þætti gærkvöldsins lauk þannig að ég get ekki beðið eftir þeim næsta. Gæti vart verið sáttari.


Um áramótin tók ég til á Spotifæinu mínu. Henti út fullt af plötum og flytjendum sem ég hef hlustað of mikið á í of mörg ár og ákvað að þetta yrði ár nýrra tónlistaruppgötvana. Síðan þá hef ég hlustað á alls konar tónlist frá öllum heimshornum, hendi nær daglega í playlista af einhverju sem ég hef aldrei heyrt og leyfi því að heilla mig eður ei. Þetta hefur verið alveg frábært. Síðustu daga hef ég til dæmis legið yfir playlista sem heitir „Deep African Techno“ eða eitthvað álíka. Ég þekki ekki einn flytjanda á þessum lista, hef ekkert lag heyrt áður, en megnið af þessu er eðalgott. Notandinn sem setur þennan lista inn á Spotify virðist vera tyrkneskur og fleiri hundruð manns eru að hlusta á þetta hjá honum, ég þar á meðal. Það hefði alveg mátt banka í unglinginn sem ég var og segja honum að það yrði svona auðvelt að fá allt að því háskólamenntun í tónlist með tæki á stærð við hálfan spilastokk í buxnavasanum hans. Hann hefði aldrei trúað því. Hér er þetta samt, öll heimsins tónlist at my fingertips eins og slett er. Stundum sakna ég gömlu plötubúðanna og alls þess sem var, en maður lifandi hvað það er ótrúlegt að hafa fullan aðgang að öllu, alltaf, fyrirhafnarlaust. Maður má ekki gleyma því hvað þetta er ótrúlegt.


Ég var að stroka út langa efnisgrein um veðrið. Of oft hef ég séð þau ráð eða reglur frá rithöfundum að maður eigi aldrei að skrifa um veðrið í sögum eða frásögnum nema maður komist ekki hjá því. Ef það er ekki sögulegur stormur í aðalhlutverki í frásögninni áttu bara að sleppa því að minnast á hvernig viðrar fyrir utan gluggann, hvort sem þú ert að blogga eða skálda. Ég get bara ekki að því gert, mér finnst ég aldrei jafn leiðinlegur eins og þegar ég fæ veðrið á heilann. Ég er fullviss um að ef ég færi yfir allar færslur vetrarins hér inni myndi ég sjá svo mikið veðurtuð að ég yrði hálf eyðilagður yfir því. Það myndi fara alveg með mig að sjá hversu botnlaust leiðinlegur ég get verið. Alveg er ég viss um að þið hugsið öll það sama. „Oh, hér kemur hann, tuðandi yfir veðrinu að venju.“ Ég biðst afsökunar á þessu, ég bara ræð ekki við mig. Verið bara þakklát fyrir að ég skuli ekki skrifa um stjórnmál á þessa síðu nema í neyð. Þá fyrst sæuð þið hversu leiðinlegur ég get verið.

Það minnir mig á, ég sá einhvern tímann fínustu fullyrðingu: ekkert eyðileggur vináttu jafn hratt og stjórnmál. Þess vegna ræði ég þau helst aldrei við vini mína, jafnvel ekki þau sem eru mögulega skoðanasystkin mín. Það er bara ávísun á vesen.


Í næstu viku ætla ég að vinna að heiman. Af því að ég get það. Ég tek mér nokkra daga í frí og af því að dætur mínar eru í vetrarfríi í skólanum ætlum við fjölskyldan upp í bústað í nokkra daga. Ég er þegar byrjaður að hlakka til. Bústaðurinn hefur auðvitað marga kosti en einn sá helsti er að ég virðist alltaf sofa betur þar heldur en heima hjá mér. Okkur er tíðrætt um kyrrðina sem ríkir úti í náttúrunni, en enn og aftur verð ég að spyrja hvort við erum að skapa okkur þennan raunveruleika. Er svona gott að sofa í sumarbústað af því að við höfum ákveðið það, eða er það raunverulega svo? Ef hið fyrra er rétt þá ætla ég alls ekki að hrófla við því, held áfram að skapa minn eigin raunveruleika. Ég ætla að sofa vel í bústað í næstu viku, ég mun sofa vel, ég skal gera það. Verði svo!

Þar til næst.