Kæri lesandi,

í dag ákvað ég að ég skyldi einhvern tímann ganga þessa bryggju sem sést hér að ofan. Hún er stödd í bænum Oceanside í Kaliforníu, í útjaðri San Diego. Og af hverju ætti ég skyndilega að hafa ákveðið að ég muni ganga þessa bryggju? Út af bók sem ég er að hlusta á (ég veit, ég veit, bókabannið til 18. feb., en ég má hlusta í og úr vinnu, þetta er klst á dag sem ég get ómögulega eytt með bara sjálfum mér). Bókin gerist í Oceanside og vakti áhuga minn á bænum. Ég gúglaði smá í dag og var fljótur að ákveða að þangað vildi ég kíkja. Einn daginn, Kalifornía, einn daginn. Meira um þessa bók síðar, að henni hlustaðri.


Þessa dagana er allt farið af stað hjá mér. Ég stend í ströngu. Skrif eru stundum eins og flutningar. Það þarf að pakka öllu niður í rétta kassa og raða því rétt út í flutningabílinn, en svo þegar öll sú vinna hefur verið unnin er loksins hægt að setjast undir stýri og njóta þess að keyra þjóðveginn í átt að nýrri tilveru. Þú endist hins vegar ekki lengi ef þú skilur búslóðina eftir. Bíllinn er að verða fullfermdur og eftir nokkra daga legg ég af stað á þjóðveginn. Þetta eru í senn spennandi og ógnvekjandi dagar. Hef ég þetta í mér? Get ég keyrt búslóðina alla leið á heimsenda, og gengið þar bryggjuna í átt að sólsetrinu, fagnað nýrri tilveru á heimsenda? Komumst að því eftir nokkra daga.

Þar til næst.