Kæri lesandi,

í nótt brestur á síðasta og versta lægðin af þeim öllum, er okkur sagt. Fólk tekur þessu nú með jafnaðargeði sýnist mér, kannski aðallega af því að fólk vonar að þessi sé sú síðasta. Þetta hafa verið langir þrír mánuðir af lægðum. En nóg um veðrið, það er leiðinlegt umfjöllunarefni, já algjört tabú segja fróðir menn.


Ég mætti manni á förnum vegi í dag. Leit upp fyrir framan búðarglugga og þar stóð hann bara og horfði á mig. Ég brosti á móti og bauð góðan daginn. Hann sagði „blessaður“ og ekkert meira. Mér fannst eins og hann kannaðist við mig, þótt ég kæmi ekkert fyrir mig hver hann væri. Svo var eins og hann sæi það, að ég kannaðist ekkert við hann, svo hann snerist á fæti og gekk í burtu, hálf sneyptur fannst mér.

Ég hélt áfram göngu minni og það tók eina eða tvær mínútur áður en minnið mætti loks til starfa og ég fattaði hver þetta var. Þetta var faðir eins strákanna sem var með mér í handbolta og fótbolta í FH þegar við vorum yngri. Sonur hans var frekar miðlungs knattspyrnumaður en betri í handbolta, jafnvel efnilegur. Ég velti í kjölfarið fyrir mér hvað varð af syninum, en svo sótti að mér minning svo ljóslifandi að ég fékk hroll.

Þegar ég var fimmtán ára lékum við til úrslita í einhverjum unglingaflokknum í handbolta. FH – Fram í Laugardalshöll. Þangað var fjölmennt, allir foreldrar og aðstandendur og vinir og slíkt. Það voru örugglega nokkur hundruð í stúkunni að horfa á þennan leik, þótt við værum bara unglingar. Ég var aldrei neitt sérstaklega góður í handbolta en var með af því að flestir strákarnir voru í báðum boltagreinunum og mér fannst gaman að vera með í þessum hópi. Ég var hægri hornamaður númer tvö í liðinu, annar var á undan mér og því í byrjunarliðinu og ég á bekknum. Við vorum örugglega sjö í byrjunarliðinu og sex á bekk í þessum úrslitaleik, kannski fimm á bekk. Ég man að varamarkvörðurinn fékk að spila í úrslitaleiknum og kannski einn eða tveir aðrir varamenn. Við hinir vorum á bekknum allan tímann, enda mikið undir og þjálfarinn búinn að útskýra að við ættum bara að halda okkur heitum og fylgjast með ef einhver skyldi meiðast og við þyrftum að koma inná. Sem við og gerðum og studdum liðið. Ég hafði skorað tvö mikilvæg mörk í undanúrslitum, þar sem ég fékk að leika talsvert á móti hinum hægri hornamanninum, og það pirraði mig lítið að spila ekki í úrslitaleiknum. Sigurinn skipti öllu máli og ég var team player.

Nema hvað, leikurinn vannst, Framarar sáu aldrei til sólar og við fögnuðum bikarnum innilega. Svo var okkur stillt upp í röð á parketi hallarinnar og verðlaunin veitt. Við fengum allir gullmedalíu, óháð því hvort við spiluðum í úrslitaleiknum eða ekki. Fyrirliðinn hampaði bikarnum og við fögnuðum ærlega. Svo komu gestir að okkur með hamingjuóskir.

Þessi tiltekni pabbi sem ég hitti á förnum vegi í dag, hann gerðist svo ómerkilegur að ganga á línuna og taka í höndina á leikmönnum með innilegar hamingjuóskir. Nema, hann tók bara í spaðann á þeim sem höfðu komið við sögu í leiknum. Ég man ennþá hvað okkur hinum þótti þetta asnalegt, og hvað sonur hans varð vandræðalegur þegar hann sá hvað pabbi gamli var að gera. Ég man líka að þetta var í eitt fyrsta skipti sem ég, þá fimmtán ára gamall, horfði á fullorðinn mann og dæmdi hann. Þessi smásálarhegðun sagði mér eiginlega allt sem ég þurfti að vita um manninn. Þegar ég hugsa til baka finnst mér þetta vera ein elsta vísbendingin um að ég hafi verið farinn að þróa með mér það innsæi að geta dæmt fólk af gjörðum þess. Það innsæi hefur stundum brugðist mér, eins og vill verða, en hefur líka oft reynst mér dýrmætt.

Hvað um það. Við unnum bikarinn og um kvöldið fórum við út að borða á Horninu og í bíó á Pulp Fiction, hvar við sátum aftast og sötruðum volgan bjór sem við höfðum smyglað inn og tókum í nefið eins og upprennandi íþróttastjörnum sæmir. Þetta var eftirminnilegur dagur.


Í kvöld fór konan mín út að skemmta sér áður en fárviðrið skellur á. Ég átti góðar stundir með dætrum mínum en sú yngri var ofurþreytt eftir langan dag og sofnaði snemma. Síðan þá höfum við eldri setið yfir sjónvarpinu og skipst á að spila YouTube-myndbönd fyrir hvort annað. Hún sýndi mér hvaða tónlist hún er að hlusta á þessa dagana og ég mælti með öðru góðu í svipuðum dúr, og svo hlógum við saman af nokkur Massive Fail! Compilation. Alltaf gaman, enda er dóttir mín með fallegasta hlátur í heimi. Hlutlaust mat.

Skólahaldi morgundagsins hefur þegar verið aflýst og Reykjanesbrautinni lokað svo að ekki keyri ég til vinnu í Suðurnesjabæ. Það verður náttfatapartý hjá fjölskyldunni, við stefnum á að fara ekkert út úr húsi ótilneydd. Svo er ég í raun dottinn í rúmlega vikufrí, ætla að nýta eitthvað af frídögunum sem ég á inni frá því í fyrra og skrifa smá og vera svo í vetrarfríi með dætrum mínum í næstu viku. Við endum eflaust í bústaðnum í nokkra daga. En fyrst ætlum við að baka múffur og spila og lesa og sofa út og fá leið á hvert öðru á morgun.

Þar til næst.