Kæri lesandi,
ég fór einu sinni út úr húsi í dag, og það var stutt. Megnið af deginum fór í að lesa 250 bls. í einni af bókunum sem ég er að lesa fyrir bókmenntaverðlaun. Ég kláraði bókina, hún var nokkuð fín en ég mun samt ekki mæla með henni til verðlauna, hef lesið betri bók í vetur í þessum flokki. Nú á ég tvær bækur eftir og þá er ég tilbúinn fyrir rökræður dómnefndar.
Lægðin kom og fór. Á morgun kemur önnur lægð. Sumarið kemur einhvern tímann, fyrir rest. Það virðist samt ansi langt í það núna.
Í dag kynnti KSÍ nýja lógóið sitt. Það er hér að ofan. Um leið og ég sá það sá ég Donald Trump þarna aftast. Hann hallar sér meira að segja fram eins og leiðtogi hins frjálsa heims gerir svo gjarnan. Ég mun aldrei geta klæðst neinu með þessu merki. Get ei afséð þetta.
Á morgun er væntanlega annar innidagur. Ætli ég lesi heila bók í einum rykk tvo daga í röð? Og það í miðju lestrarbanni? Fylgist með!
Þar til næst.