Kæri lesandi,
í dag get ég ekki hugsað um neitt annað en fótbolta. Fyrir því eru tvær ástæður, sem tengjast en samt ekki. Sú fyrri er að í gærkvöldi féll hamar UEFA beint á höfuð eigenda Manchester City. Félagið var dæmt í tveggja ára bann frá þátttöku í Evrópukeppnum og sektað um einhverjar milljónir sem eru vasapeningur fyrir eigendurna. Evrópubannið er hins vegar rosalegt, þetta er algjört bylmingshögg fyrir eigendur sem hafa eytt áratug og ómældum upphæðum í að koma þessu liði í fremstu röð.
Ég ætla ekki að skrifa langa og vandaða grein þar sem allar hliðar málsins eru tíundaðar. Það er til nóg af þeim greinum þarna úti og ég hef lesið bunka af þeim í dag. Staðreyndin er hins vegar sú að það er öllum sem fylgjast með knattspyrnu ljóst að þetta City-lið hefur haft rangt við og brotið reglur UEFA í mörg ár. Þannig náðu þeir að fjármagna áður óséðan uppgang liðs sem fram að því var hálfgert djóklið í Manchester-borg. Það er engin innistæða fyrir þessari ótrúlegu velgengni, þessu stjörnuliði sem getur borgað hæstu launin og engu til sparað. Þetta hefur verið hálfsúrt, ekki síst þegar maður styður liðið sem hefur oftar en ekki verið í öðru sæti á eftir þessum andskotum.
Þessi dómur er risastór af því að hann gæti breytt landslaginu í enska boltanum, ef áfrýjun City gengur ekki eftir í sumar og banninu verður viðhaldið, og líka af því að þessi dómur er fordæmisgefandi fyrir knattspyrnu um alla álfuna. Og af því að það er öllum ljóst hvað hefur verið í gangi þá er nauðsynlegt að þetta bann standi.
Hin fréttin er svo sú einfalda staðreynd að mitt lið, Liverpool, sem hefur eytt síðasta áratug horfandi upp á þetta City-lið eins og eitthvað óvinnandi vígi, hefur lagt drekann svo rækilega í vetur að annað eins hefur ekki séð. Mínir menn unnu enn og aftur í dag, eru efstir með 25 stiga forskot, hafa unnið 25 af 26 deildarleikjum í ár. Þetta eina jafntefli í síðasta september er í raun eini leikurinn af síðustu 35 sem liðið hefur ekki unnið. Liverpool hefur náð í 103 af síðustu 105 stigum í boði í ensku Úrvalsdeildinni.
Slíkt hefur aldrei gerst í sögu efstu deilda í Englandi, Frakklandi, Þýskalandi, Spáni og Ítalíu. Stóru fimm deildirnar hafa sem sagt aldrei séð jafn gott knattspyrnulið. Það er tölfræðilega staðfest.
Eitt af mörgu jákvæðu við þetta gengi er að Liverpool skuli hafa skilið City svona rækilega eftir í rykinu áður en þessi dómur um City féll. Ef sá dómur hefur þau áhrif á nánustu framtíð City-félagsins sem menn eru að spá verður allavega ekki hægt að segja að Liverpool hafi verið fært velgengnin sem mun fylgja næstu árin ef City-liðið hefur verið fjarlægt sem hindrun, af því að mínir menn voru þegar orðnir betri en þeir.
Annað jákvætt er að um leið og hið óumflýjanlega verður staðreynd, eftir svona mánuð í mesta lagi, og Liverpool verða Englandsmeistarar eftir þrjátíu ára bið, þá falla endanlega í burtu síðustu hömlurnar á mér sem manneskju sem er gjörsamlega með enska boltann á heilanum. Ég hef satt best að segja reynt í nokkur ár að minnka glápið á enska boltann en ég get ekki sleppt. Af því að Liverpool hafa verið svo fokking ógeðslega góðir, en þökk sé fáránlega góðu City-liði ekki fengið að njóta meistaratignarinnar sem þeir hafa svo rækilega unnið fyrir síðustu tvö árin. En nú er loksins komið að því, og það er að gerast með þess háttar ruglvelgengni að það verður aldrei toppað. Þetta mun aldrei gerast aftur. Og þá er alveg eins gott að hætta þessari þráhyggju bara í vor, á toppnum.
Mig langar sem sagt að losna við þráhyggjuna. Geta verið eins og allir hinir sem horfa á sitt lið þegar þeir hafa tíma til og pæla annars lítið í þessu. Nú gæti loksins verið komið að því. Ég ætla að njóta mín í botn fram á vorið, og svo ætla ég að reyna að hugsa um eitthvað annað.
Meistarar í vor. Skítsama í haust. Látum á það reyna.
Þar til næst.