Kæri lesandi,
þetta var nú meiri dagurinn. Venjulega hef ég daginn með langan lista yfir atriði sem ég þarf að gera, mig langar að gera ef ég hef tíma til og sem ég verð að gera. Ég næ sjaldan eða aldrei að klára listann. Í dag kláraði ég hann. Þar munaði mestu að ég vaknaði snemma; tók til heima eftir gærkvöldið, fór í ræktina, skrifaði, henti mér á kaffihús og sinnti smá vinnu … allt fyrir hádegi. Eftir það var restin af deginum tertusneið, með svona góða forgjöf gat ég ekki annað en haldið áfram að slá í gegn.
Ef allir dagar væru svona góðir … ekki satt? Af hverju eru fyrstu viðbrögð manns eftir góðan dag að harma þá daga sem ekki heppnast jafn vel? Í staðinn ætla ég að sitja hér í kvöld, skrifa aðeins meira og njóta þess hvað þessi dagur heppnaðist vel.
Um áramótin skrifaði ég aðeins um leit mína að tækni og tólum til að einfalda daglega verkefnavinnu. Ég endaði á að velja mér dagbókarform sem kallast Bullet Journal. Svo lagði ég af stað í upphafi árs, fullur af orku og bjartsýni. Hún entist í tvær vikur eða svo, og eftir þrjár hafði ég gefist alveg upp. Það er nokkuð ljóst að það á ekki við mig að skrifa daglega í dagbækur, sama hvert formið er. Ég er ekki það mikill dútlari með penna og stílabók að ég nenni að uppfæra slíkt daglega. Ég geri allt í gegnum símann. Þannig að enn heldur leit mín áfram að einhverju sem getur einfaldað daglega skipulagningu. Samstarfsaðili minn stkak upp á forriti sem heitir Notion, ég ætla að skoða það aðeins í kvöld. Kannski er það töfralausnin? Spennandi!
Annað sem ég talaði um í desember var töfrastokkurinn sem ég keypti mér frá útlöndum. Wordsmith-stokkurinn svokallaði frá BestSelf. Nú skulum við draga spil úr stokknum:
What would you do if you won the lottery?
Þvílík spurning. Augljósa svarið er að sjálfsögðu það að ég myndi borga upp skuldabréfið okkar, húsnæðislánið sem er það eina sem við „skuldum“, fyrir utan stöku greiðslukortareikninga eftir utanlandsferðir. Og bílinn sem við keyptum í fyrrasumar, ég myndi borga hann upp líka.
En hvað svo? Ef við gefum okur að ég ynni það háa upphæð að hún gæti gjörbylt lífi fjölskyldunnar. Myndi ég deila þessari upphæð með mínum nánustu? Myndi ég stofna fjárfestingafyrirtæki og henda mér í ávöxtun á fénu? Skella mér til Vegas í tengingaspil? Taka dæturnar úr skóla og ferðast um heiminn í nokkur ár?
Það er erfitt að svara þessu. Sumir myndu kannski segja upp vinnu sinni daginn eftir að þeir dyttu í lukkupottinn, en ég er í ansi góðri vinnu og hef það fínt. Ég held að ég yrði ekki sjálfum mér bestur ef ég væri ekki í vinnu, ef ég hefði endalausan tíma til að hugsa um sjálfan mig og kannski skrifa. Ég lærði það í fyrra í fótbrotinu, það hentar mér ekki að hafa lítið fyrir stafni. Svo er ég bæði heppinn og forréttindapési, mig skortir lítið. Af lúxus að nefna myndi ég kannski helst vilja ráða kokk til að elda ofan í mig alla daga, þá yrði mataræðið loksins eins og það á að vera og gvöðminngóður hvað við Lilja myndum þiggja að þurfa ekki að elda ofan í heimanám dætranna og allt hitt sem þarf að sinna á kvöldin þegar allir eru orðnir þreyttir og pirraðir. Þetta endar alltaf í kaos, sem foreldrar erum við verst í þessum hluta heimilislífsins. Já, ég myndi ráða mér kokk. Borða eins og ofurríkur íþróttamaður á heimsmælikvarða.
Eflaust myndi ég deila auðnum. Hjálpa þeim sem standa mér nærri, sem og þeim sem minna mega sín. Kannski gæti ég hætt í vinnunni og rekið tvö fyrirtæki í staðinn, fjárfestingarsjóð og styrktarsjóð.
Þetta er fínasta spurning. Svarið við henni segir manni margt um sjálfan sig. Ég held allavega að ég sé ekki sjálfselskur, það fyrsta sem mér datt í hug var hvernig best væri að deila lukkunni með mér. Og ekki held ég að ég lifi í sjálfsblekkingu fyrst ég myndi ekki hætta í vinnu nema að hafa eitthvað fyrir stafni í staðinn. Að því sögðu þá myndi ársmiði á Anfield ekki hljóma illa heldur, og ef ég væri almennilega hvatvís gæti ég skilið fjölskylduna eftir heima í nokkra mánuði og elt TOOL á tónleikaferðalagi.
Aðallega myndi ég kaupa mér allt of margar bækur. Og peysur, eins og þú veist lesandi góður. Þar hef ég enga sjálfsstjórn.
Þar til næst.