Kæri lesandi,

í morgun fór ég inn í geymslu og sótti ryksuguna. Til stóð að ryksuga yfir íbúðina, áður en við förum í bústað á morgun. Það er alltaf skemmtilegra að geta skilið heimilið eftir í fínu formi, þá er svo gott að koma heim. Þannig að ég sótti ryksuguna, stakk henni í samband og fór af stað. Í stofunni færði ég sófann og dívaninn og sjónvarpsskápinn og borðið og stólana og glerskápinn allt frá veggjum til að gera þetta almennilega. Tæplega tveimur klukkustundum síðar var ég búinn að endurraða allri stofunni, alveg óvart. Nú sit ég í sófanum með tölvuna í fanginu og mér líður eins og ég sé annars staðar en heima hjá mér. Þetta var alveg óundirbúið. Svona getur maður verið hvatvís.

Í dag las ég líka 150 bls. og kláraði bókina sem ég hef verið að lesa síðustu daga. Þegar ég lokaði henni síðdegis var ég ánægður með sjálfan mig. Ég var búinn með leslistann fyrir dómnefnd bókmenntaverðlauna. Ég stóð upp og fór að útbúa kvöldmatinn … en þá mundi ég eftir einni bók sem var ekki á upphaflega listanum. Ég gróf mig niður í tölvupóstþjóninn minn og fann uppfærða listann, og viti menn ég á eina bók eftir. Ég fann hana uppi í hillu og hún fer með í bústaðinn á morgun. Ein enn og þá er þetta pottþétt komið í ár.

Í kvöld horfði ég á fótboltaleik. Hann fór eiginlega nákvæmlega eins og búist var við, sem er undarlegt því að Liverpool tapaði. Ég hefði veðjað háum upphæðum á 1-0 sigur Atletico Madrid á heimavelli, ef ég væri gamblari. Þetta var mjög fyrirsjáanlegt. Þeir skoruðu mark snemma eftir bras á vörn Liverpool í hornspyrnu, fengu eiginlega gefins dauðafæri og nýttu það. Svo gerðu Atletico-menn það sem þeir gera best, það sem þjálfari þeirra gerir öllum betur í Evrópu. Þeir bitu á jaxlinn, lokuðu öllum leiðum og innbyrtu þennan 1-0 sigur með eljusemi, krafti og öllum brögðunum í bókinni. Sem betur fer á Liverpool seinni leikinn eftir, og það á heimavelli. Evrópu-Anfield mun blása til orrustu enn á ný eftir þrjár vikur.

Í nótt ætla ég að sofa betur en síðustu tvær nætur. Úrið mitt mælir svefninn og skilar af sér skýrslu á morgnana. Síðustu tvo morgna hefur úrið spurt, einfaldlega, „what happened?“ Ég hef ekki haft mörg svör á reiðum höndum, en ég og úrið áttum hins vegar innilegt samtal á jákvæðum nótum í morgun og ég lofaði að gera betur. Nú er að standa við stóru orðin.

Á morgun hleð ég svo dótinu okkar út í jeppann og ek af stað. Við ætlum að reyna að komast austur fyrir fjall fyrir hádegi, áður en lægðin skellur á og heldur okkur væntanlega innandyra í sólarhring í bústað. Þá verður spilað og hlegið og kúrt, og já ég mun lesa eftir allt saman. Ég ætla líka í heita pottinn, jafnvel þótt það verði skítkalt og haglél annað kvöld. Við ætlum meira að segja að taka kisu með okkur að þessu sinni. Við skiljum hana venjulega eftir heima en í þetta sinn sáum við aumur á litla skottinu. Hún fær að kúra með okkur fyrir austan fjall, sem er nær æskustöðvum hennar en hún fæddist og bjó fyrstu vikurnar á Hellu áður en ég hitti eigendur hennar á Selfossi og tók af þeim kettlinginn. Þau vildu ekki eiga nema bara móður hennar og því fór sem fór, hún og bróðir hennar voru gefin í sitt hvora áttina. Ég hef stundum pælt í því hvernig köttum finnist að vera slitin frá sínum nánustu ættingjum og gefin í ókunnug hús. Er þeim skítsama, eða taka þau slíkt jafn nærri sér og flest önnur dýr? Ég veit það ekki, en ég man vel hversu skíthrædd hún var þegar ég sótti hana, og hversu mikið hún faldi sig og reyndi að forðast okkur fyrstu dagana eftir að hún kom heim með mér. Ég var enginn kattavinur, lét þetta eftir dætrum mínum sem höfðu suðað um þetta lengi, en strax á bílferðinni frá Selfossi í bæinn, þar sem litla skottið mjálmaði stöðugt ofan í pappakassa og vildi helst ekki að ég sleppti henni þá tókust einhver bönd. Hún náði mér algjörlega. Ég er ánægður með að hún komi líka í bústaðinn.

Þar til næst.